149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[12:40]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það var eitthvað fleira sem ég ætlaði að koma inn á en ég finn að ég er bara ekki í æfingu við að koma uppi í ræðustól, það er svo langt síðan maður hefur átt í orðaskiptum hérna. Ég ætlaði reyndar að hafa Þingvallanefnd inni í þessu líka af því að hv. þingmaður situr með mér í henni og þar er aldeilis verið að ræða ferðamenn og umferðarmál og annað.

Þá kem ég svolítið að kaflanum um hlutlæga refsiábyrgð eiganda eða umráðamanns ökutækis. Það tengist því að við erum m.a. að kljást við, þótt það komi ekki beinlínis refsiábyrgð við, að það hefur reynst þrautin þyngri að stýra umferð bílaleigubíla, ferðamanna, inn á bílastæði til að fá greiðslur. Það væri gaman að heyra álit þingmannsins á því. Ég átta mig á því að þetta eru ekki umferðarlög en ef við eigum að láta það ganga hnökralaust er það hluti af því sem við þurfum að finna sem fyrst lausn á. Það væri áhugavert að heyra í hv. þingmanni af því að hann þekkir þau mál mjög vel.

Síðan langar mig í seinni umferð, sem er reyndar búin, að heyra skoðanir hv. þingmanns á öðru. Það eru (Forseti hringir.) miklar tækninýjungar, ekki síst í þessum geira. Erum við ekki að seilast ansi langt inn á (Forseti hringir.) persónuvernd með eftirlitinu? Er það mögulega eitthvað sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af? Það er erfitt að hreyfa sig á Íslandi í dag án þess að hægt sé að fylgjast mjög mikið með manni og vissulega er það ákveðið öryggisatriði, en það getur gengið of langt. Hefur hv. þingmaður skoðun á því hvort við séum kannski með þessum lögum að opna svolítið á slíkt?