149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[14:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er annað atriði sem ég legg til að nefndin taki til athugunar á milli 2. og 3. umr. af því að í framsöguræðunni var komið dálítið inn á létt bifhjól, rafknúin reiðhjól, skilin þar á milli. Síðan bætist hjálmaskyldan við þótt ekki sé hraðatakmörkun á hjólreiðastígum eða gangstéttum þar sem hjólreiðamenn hjóla almennt. Mér finnst eftir á vanta betri umfjöllun í nefndarálitið. Það hefur verið allt of mikill hraði á þessu hérna undir lokin og þetta kemur dálítið seint, ég viðurkenni það fúslega.

Ég ætlaði upprunalega þegar málið var afgreitt úr nefndinni að greiða atkvæði gegn þeirri breytingartillögu að fjarlægja 15 ára hlutann. Æskilegra væri ef það væri almennari umræða um það því að hún var allt of lítil í nefndinni. Eins og ég sagði komu ekki þeir aðilar sem breytingin hefur áhrif á fyrir nefndina með umsagnir sínar.

Þetta er mjög viðamikið frumvarp og ýmislegt sem maður fær ábendingar um núna þegar nefndarálitið er komið fram í samfélaginu, þá sér maður hlutina í betra samhengi en áður og frá öðru sjónarhorni sem var ekki í flýtimeðferðinni á lokametrunum í nefndinni.

Þrátt fyrir það voru umferðarlögin mjög vel unnin í nefndinni. Það var bara á síðustu metrunum sem þessi breytingartillaga kom fram, sem maður sá ekki fyrir og var ekki búið að ræða í nefndinni og svo sá maður hana allt í einu í nefndarálitinu síðustu dagana.