149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirna. Jú, kvartað var undan samráðsleysi og nokkuð margir sem gerðu það. Ég hjó sérstaklega eftir því að hjá dvalar- og hjúkrunarheimilum var kvartað undan því að það væri ekki einu sinni samið við þá, þótt þeir vildu fá samning. Þeir eru eiginlega ekki virtir viðlits og þurfa kannski að skera niður þjónustu vegna þess að samráðsleysið er orðið það mikið.

Ég verð að segja alveg eins og er með biðlista að ég er búinn að vera að fylgjast með þeim og því miður virðast flestir vera að lengjast. Það virðist alltaf verið að gera hlutina á rangan veg, vegna þess að það væri er hægt að gera þetta betur. Ég sé ekkert að því að semja tímabundið við aðila úti í bæ til að reyna að grynnka á þessu, til að reyna að koma því í lag. Það á enginn að þurfa að vera á biðlista lengur en í þrjá mánuði. Fólk veit af því núna að ef það er á biðlista lengur en í þrjá mánuði má það bara fara til útlanda, það hefur rétt á því. En þá verður fólk líka að taka þá ákvörðun strax, áður en það verður of veikt til að fara til útlanda, annars getur það lent í því að fá ekki að fara í aðgerðina vegna þessa að það er orðið of veikt, eins og við höfum heyrt tilfelli um.

Síðan var það í þriðja lagi (Gripið fram í: Frjáls félagasamtök.) — já, frjálsu félagasamtökin. Það þarf að taka þau miklu betur inn. Það eru svo mörg frjáls félagasamtök þarna úti sem gera góða hluti og það þarf að skerpa á þeim, vegna þess að þau spara ríkinu (Forseti hringir.) stórar upphæðir. Þar þarf að taka á.