149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

norðurskautsmál.

[09:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég held að við forsætisráðherra getum fagnað því og það var sérstaklega ánægjulegt að í Evrópuþingskosningunum voru það græningjar, með mikla áherslu á umhverfismál en ekki síður á Evrópusamstarf, alþjóðasamstarf, sem unnu og síðan frjálslyndir demókratar þvert yfir álfuna. Það er mikið fagnaðarefni.

Ég held líka að hæstv. forsætisráðherra verði að nýta byrinn hér í þinginu varðandi loftslagsmálin. Við verðum að taka þau alvarlega og það þýðir ekki að fara eftir því hvað aðrir stjórnarflokkar hafa að segja í því máli. Það þarf að stíga miklu róttækari skref en verið er að gera.

Ég ítreka spurningu mína af því að það er lenska að svara ekki — við höfum verið hér heilan vetur og ég held að ég hafi aldrei fengið svör við spurningum sem ég hef beint til hæstv. forsætisráðherra. Ég ítreka spurningu mína: Hvernig ætlar forsætisráðherra að beita sér varðandi norðurskautið? Hvernig ætlar hún að beita sér fyrir því að dregið verði úr notkun svartolíu á svæðinu sem hefur gríðarleg áhrif hvað varðar hlýnun jarðar? (Forseti hringir.) Hvernig ætlar hún að beita sér fyrir því að loftslagsmálin verði sett af alvöru á dagskrá Norðurskautsráðsins en ekki farið eftir Trump-stjórninni (Forseti hringir.) og stuðningsfólki hennar í Bandaríkjunum?