149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

norðurskautsmál.

[09:44]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður kvartar yfir að fá engin svör. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér formennskuáætlun Íslands sem hún ætti nú að þekkja, verandi í utanríkismálanefnd. Þar eru markmiðin sett fram með skýrum hætti hvað varðar loftslagsmál.

Hv. þingmaður talar um bann við svartolíu. Ég ítreka svar mitt frá því fyrir tveimur mínútum, ef hv. þingmaður náði því ekki sem ég sagði þá, um að hæstv. umhverfisráðherra hefur boðað bann við notkun svartolíu (Gripið fram í.) í landhelgi Íslands. Það þýðir að Ísland mun verða í fremstu röð hvað það varðar í heiminum.

Ég held að hv. þingmaður ætti að fagna því að markmið Íslands í loftslagsmálum, a.m.k. í tíð núverandi ríkisstjórnar, eru metnaðarfyllri en markmið innan ESB. Kannski höfum við ákveðið tækifæri til að nýta okkur það að standa utan Evrópusambandsins til að setja okkur eigin markmið í þeim málum.