149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

tilkynning.

[11:11]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það þarf kannski ekki að koma á óvart að þingmenn kalli eftir eitthvað skýrari sýn á það hvernig þingstörfum verður háttað bæði í dag og næstu daga. Minni hlutinn hefur ítrekað reynt að kalla eftir því við meiri hlutann að fram komi skýr sýn á það hvernig þingstörfum verður háttað og við náum að ljúka fjölmörgum mikilvægum málum sem eru á dagskrá en þar höfum við komið algjörlega tómum kofanum, bæði hjá formönnum meiri hlutans og augljóslega hafa þingflokksformenn meiri hlutans að sama skapi gengið algjörlega umboðslausir til umræðna um slíka samninga. Það þarf ekki að koma sérstaklega á óvart að kallað sé eftir skýrari sýn frá hæstv. forseta.

Hér er ríkisstjórn og þingmeirihluti sem talaði um ný vinnubrögð á Alþingi. Við erum alveg reiðubúnir að sitja hér í sumar en það er þá kannski líka eðlilegt að við vinnum á eðlilegan hátt og á eðlilegum tímum dags en ekki undir hótunum um að það verði næturfundir dag eftir dag til að meiri hlutinn geti kúgað minni hlutann til hlýðni og þagnar.