149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

tilkynning.

[11:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það má taka undir það með hv. þm. Smára McCarthy að lengd umræðu er eitt og gæði eru annað. Það mættu menn hafa í huga í öðrum málum, að magn er ekki sama og gæði. Umræðan verður ekki betri við það að standa dögum saman, það verða ekki skýrari upplýsingar eða nein ný sjónarmið sem koma fram ef menn sitja fastir í sama farinu og endurtaka sig eins og gerst hefur í öðrum málum.

Hið sama má segja um þessa fjármálastefnu, það ætti ekki að vera neitt tiltökumál fyrir talsmenn flokka á því málefnasviði að koma öllum helstu sjónarmiðum á framfæri og rökræða þau á nokkrum klukkutímum. Það er ekkert tiltökumál. Umræðan batnar ekkert endilega við það að allir þingmenn nýti sér allan ræðutímann sem þeir hafa samkvæmt þingsköpum. (Forseti hringir.) Það verður ekki betri umræða, það verður ekki betri vinna sem felst í því, bara þannig að það sé sagt.