149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[11:46]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er rétt að hér er um stórt og mikilvægt mál að ræða. Í meiri hluta þeirra tæplega 40 umsagna sem bárust við þinglega meðferð heilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar kom fram gagnrýni á og vonbrigði með tvennt, annars vegar skort á því að línur væru lagðar í mikilvægum málaflokkum á borð við geðheilbrigðismál, forvarnir, endurhæfingu og málefni eldri borgara. Svar heilbrigðisyfirvalda við þessari gagnrýni var það að þær áætlanir kæmu síðar. Þær verða hins vegar ekki settar í þinglega meðferð. Samkvæmt því sem verið er að samþykkja hér verða þær eingöngu lagðar fram á þingi til upplýsingar og umræðu.

Í annan stað gagnrýndu umsagnaraðilar mjög samráðsleysi við hryggjarstykkið í íslenskri heilbrigðisþjónustu, þ.e. alla þá sem standa utan ríkisrekinna stofnana. Afleiðing þeirra vinnubragða er að heilbrigðisstefnan miðast við þær stofnanir og þá hluta heilbrigðiskerfisins sem fengu að koma að málum á upphafsstigum. Annað fer í áætlanir sem koma ekki til kasta þingsins. Við í Viðreisn getum ekki greitt atkvæði með þessum vinnubrögðum og lýsum yfir miklum vonbrigðum með afgreiðslu ráðherra og afgreiðslu þingsins á þessum mikilvæga málaflokki.