149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[11:50]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég er ekki hrifinn af öllu sem er í þessari heilbrigðisstefnu en stóra myndin er sú að við erum alla vega komin með heilbrigðisstefnu sem þýðir að allt verður að miða að sama marki, að gæðum og öryggi fyrir sjúklingana. Það er ekki hægt að taka svona hluti til hliðar eins og það að stækka pottana þegar kemur að einkarekstrinum sem hefur bara — við sjáum það í skýrslu eftir skýrslu, McKinsey-skýrslunni og upplýsingum frá ráðuneytinu og svoleiðis, að sá hluti var alltaf að vaxa með mjög takmörkuðu eftirliti með því hvernig þeir peningar væru notaðir. Hálskirtlatökur voru tvöfalt ef ekki þrefalt fleiri á Íslandi en á Norðurlöndunum af því að hægt var að hafa það þannig. Við erum komin með heilbrigðisstefnu sem þýðir að nú miðar allt að öryggi og gæðum þjónustunnar sem sjúklingurinn fær og síðan verður fjármagn að fylgja á þeim forsendum.

Þetta er gríðarlega mikilvægt þannig að ekki sé hægt að búa til tvöfalt heilbrigðiskerfi í krafti fjárlaga hverju sinni. Þetta er frábær dagur. Við höfum beðið gríðarlega lengi eftir þessu, ég hef ítrekað kallað eftir þessu í ræðustól af því að drögin hafa verið til mjög lengi en ekki hefur verið vilji til að gera þetta af því að þetta kemur í veg fyrir einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu án eftirlits.