149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[11:54]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að fara að greiða atkvæði um þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Það er gríðarlega mikilvægt vegna þess að hér er verið að setja ramma utan um heilbrigðisstefnuna til 2030 og það sem á að rúmast innan hennar skal vera sett í aðgerðaáætlun. Það er mjög mikilvægt að þessi heilbrigðisstefna landsins fylgi ekki duttlungum hverrar ríkisstjórnar fyrir sig, að settur verði ákveðinn rammi sem við getum sætt okkur við.

Segja má að komið hafi fram ýmsar ábendingar og annað sem gæti fylgt inn í aðgerðaáætlunina sem við bíðum öll eftir. Hún ætti þá að eiga heima þar og rúmast. En þessi stefna er mjög mikilvæg. Hér erum við að taka tillit til allra þegna, hvort sem er í fæðingu eða á hjúkrunarheimili, þannig að allir njóti sömu réttinda hvar á landinu sem þeir búa og á hvaða aldri sem þeir eru.