149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

21. mál
[12:16]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þótt hér sé ekki verið að greiða atkvæði um lögfestingu á þessum samningi Sameinuðu þjóðanna er hér lagt til að farið sé í þessa löggildingu svo fljótt sem verða megi og hér liggur fyrir breytingartillaga um að draga aðeins úr því.

Ég ætla að sitja hjá við afgreiðslu þessa máls með vísan til þess sem kemur einmitt fram í nefndaráliti þar sem áréttað er að ákvæði samningsins feli að miklu leyti í sér markmið. Slíkir samningar og slíkur texti er á skjön við íslenska lagahefð sem byggir á því að lagatexti eigi að vera skýr um réttindi og skyldur borgaranna. Texti sem þessi hentar ekki og skapar engan beinan rétt fyrir þá sem vilja leiða af honum einhvern rétt fyrir dómstólum og er síður en svo til þess að skýra réttindi og skyldur fatlaðs fólks sérstaklega.

Það kemur fram líka í nefndarálitinu að áður hefur verið samþykkt ályktun um að samningur Sameinuðu þjóðanna yrði innleiddur í alla lagaumgjörð og framkvæmdir. Sú vinna stendur yfir og gengur mjög vel og við eigum að einhenda okkur í það (Forseti hringir.) og einbeita okkur að því að ljúka því verki og gera það vel.