149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[17:51]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hv. þingmaður gagnrýndi útgjaldaáform þeirrar ríkisstjórnar og styður nú ríkisstjórn sem jók þau útgjaldaáform um held ég 50%, ríflega 300 milljarða útgjaldaaukning á gildistíma fyrstu fjármálaáætlunar sem sú ríkisstjórn setti fram, þannig að ekki var hlustað sérstaklega mikið á varnaðarorðin þar. Vandamálið er auðvitað það sama. Þegar aukið er svona skarpt í útgjöldin án þess að tekjustofnar séu styrktir á móti kemur að skuldadögum með það. Það er það sem ég hef ítrekað gagnrýnt með fjármálastefnu þessarar ríkisstjórnar. Það verður að velja þarna á milli. Það hefði þá átt að fara varlegar í útgjaldaaukningunni ef ekki stóð til að hækka skatta til þess að fjármagna þetta útgjaldastig inn í framtíðinni. Það eru, held ég, þær krossgötur sem þessi ríkisstjórn stendur nú á og mun standa frammi fyrir á næstu tveimur árum eða svo, hvort hún ætli að fara í myndarlegan niðurskurð á ríkisútgjöldum eða einfaldlega að sætta sig við að hún verði að hækka skatta til að fjármagna útgjaldaloforðin.