149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður veltir fyrir sér hvort nýta eigi sveiflujöfnunartæki í hagkerfinu. Ég er þeirrar skoðunar að það eigum við að gera og að það sé mjög skynsamlegt, einkum fyrir svona lítið hagkerfi sem sveiflast með aflanum og verði á fiski og hversu margir ferðamenn koma á hverju ári o.s.frv. Við erum háð þessum stóru útflutningsgreinum og ættum því að safna til mögru áranna þegar vel gengur.

Það gerðist hins vegar ekki hér á árunum 2013–2016/2017 þegar við vorum á leiðinni upp áttum við auðvitað að safna í sarpinn og áttum ekki að lækka skatta. Þá áttum við að leggja til hliðar fyrir mögru árin, sem sannarlega koma einhvern tímann og eru reyndar komin núna. Ef við hefðum verið með svona markmið í núgildandi stefnu sem gerðu ráð fyrir hagsveiflunni hefðum við þurft að skila miklu meiri afgangi en 30 milljörðum til að mæta niðursveiflunni.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í því að hagstjórnin frá 2013 til dagsins í dag hafi ekki verið nægilega skynsamleg þegar kemur að þessum hlutum. Í bullandi góðæri voru skattar lækkaðir og útgjöld aukin — sannarlega þurftum við á því að halda að auka útgjöldin vegna þess að innviðaskuldin var stór — (Forseti hringir.) en það er alls ekki hægt að segja að hér höfum við nýtt okkur kosti sveiflujöfnunar.