149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Jú, virðulegur forseti, ég hefði mjög gaman af því að setjast einhvern tímann niður með hv. þingmanni og fara yfir draumaráðningar Jósefs og Faraós í 41. kafla fyrstu Mósebókar en sér í lagi kannski hvað felst í því að Jósef hafi eftir allt verið gerður ráðherra Faraós, en við ræðum það kannski yfir kaffibolla seinna, við annað tækifæri.

Hvað varðar ferðaþjónustuna var það eitt af því sem mig langaði að fara út í hefði ég haft meiri tíma í ræðu minni. Með ferðaþjónustuna er það þannig að þessi tillaga er byggð á hagspá Hagstofunnar og er það samkvæmt prógramminu, eins og sagt er á hræðilegri íslensku. Ég skil það alveg, en það sem mér finnst vera brotalöm þessa fyrirkomulags og koma hvað best í ljós er að þegar tillagan sem hér er lagt til að verði breytt og var lögð fram seinasta haust — það var vel vitað að þetta yrði ekki lengsta hagvaxtartímabil í sögu mannkyns. Það var vel vitað að toppnum væri sennilega náð í ferðaþjónustunni og líklega færi hann eitthvað aðeins niður en einhvern veginn samt dugði sú vitneskja með tilliti til hagspár Hagstofunnar ekki til þess að þeir sem lögðu fram tillöguna sæju það fyrir fram. Mér finnst það eitt og sér áhugavert.

Sömuleiðis tek ég eftir því í forsendum sem eru gefnar hérna að niðursveifla verði í ferðaþjónustunni á þessu ári um 11–14% en svo er sagt að ekki sé gert ráð fyrir að ferðaþjónustan aukist eftir það. Það finnst mér áhugavert. Er verið að segja að þá sé botninum náð í þeirri niðursveiflu? Ég upplifi það þannig að það sé aðeins of mikil bjartsýni þarna fyrir minn smekk, þ.e. þegar kemur að því að gera ráðstafanir. Þetta eru reyndar ekki áætlanir, þetta voru forsendur tillögunnar sem eru gefnar sem mér finnst mikilvægara að hafa svartsýnni en áætlunina sjálfa.