149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst það bara mjög vel athugandi. Mér sýnist þessi tillaga fela í sér að það muni koma til þess að ríkið þurfi að draga saman, hækka skatta og minnka útgjöld, sem mér finnst mjög slæmt að gera vitandi það að niðursveifla er, ýmist komin eða á leiðinni eða hvernig sem menn líta á það. Síðan er hitt að hugmyndin á bak við þjóðarsjóð er sú að takast á við efnahagsleg skakkaföll. Þá verður maður svolítið að velta fyrir sér hvort markmiðinu sé betur náð með því að nýta það fjármagn til að koma í veg fyrir efnahagsleg skakkaföll frekar en að byggja upp sjóðinn. Að því sögðu er ég í grundvallaratriðum hlynntur því að það sé til eitthvað á borð við þjóðarsjóð með öllum fyrirvörum um það hvernig honum sé komið á fót, hver stýri honum og með hvaða hætti og sömuleiðis í hvað hann sé nýttur. Ég hef alltaf skilið hugmyndina þannig að sjóðurinn sé til þess að koma til hjálpar ef skakkaföll verða.

Við sjáum kannski ekki fram á hörmungar með tilliti til þessarar þingsályktunartillögu en ég vil miklu frekar vera of svartsýnn en of bjartsýnn þegar kemur að því að meta forsendur fyrir spánum og sér í lagi þá hugsanlegum viðbrögðum við þeim. Ef búið er að festa niður þjóðarsjóð á þeim tíma svo mikið að það komi beinlínis niður á getu okkar til að bregðast við niðursveiflu er það klárlega eitthvað sem ég myndi alla vega vilja að við værum búin að ræða almennilega fyrir fram og búin að ræða líka þjóðarsjóð, sem er annað mál á dagskrá, mig minnir að það sé á dagskrá, í samhengi við þessa tillögu. Mér finnst spurning hv. þingmanns mjög góð og algjörlega verðug frekari umræðu.