149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:29]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Ríkisstjórnin hefur lagt fram endurskoðaða fjármálastefnu en upphafleg stefna var samþykkt á Alþingi 22. mars í fyrra. Áætlunin tekur til áranna 2018–2022 og var þess vegna rétt rúmlega 14 mánaða gömul þegar ríkisstjórnin sá sig tilneydda til að gera á henni breytingar sem hér eru til umræðu.

Frú forseti. Það er fullt tilefni til að rifja upp nokkur atriði varðandi lög um opinber fjármál sem tóku gildi 1. janúar 2016. Á heimasíðu Stjórnarráðsins segir m.a. svo um hlutverk fjármálaráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Framtíðarsýn í efnahagsmálum er forsenda hagsældar til lengri tíma litið. Fjármála- og efnahagsráðuneytið leikur veigamikið hlutverk í aðstoð við mótun og eftirfylgni stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, með hliðsjón af stöðu og þróun efnahagsmála innan lands sem utan.“

Þá vil ég vitna til þess hvað segir um markmið og tilgang laganna um opinber fjármál. Þar segir m.a.:

„Markmið laga þessara er að stuðla að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála“ — þ.e. fjármála ríkisins og fjármála sveitarfélaga. Með þetta að leiðarljósi er lögunum ætlað að tryggja heildstæða stefnumörkun í opinberum fjármálum til lengri og skemmri tíma, vandaðan undirbúning áætlana og lagasetningar sem varða efnahag opinberra aðila og öflun og meðferð opinbers fjár. Enn fremur segir á vef Stjórnarráðsins um þessi mál:

„Með lögunum er lögð áhersla á langtímahugsun, stöðugleika, aga við framkvæmd fjárlaga og bætt reikningsskil. Með þeim er sett umgjörð um opinber fjármál og sköpuð skilyrði fyrir samþættingu markmiða í efnahagsmálum og fjármálum hins opinbera bæði ríkis og sveitarfélaga.

Grunnstoðir laganna eru þrjár: Fjármálastefna, fjármálaáætlun og fjárlög. Við stefnumörkun í opinberum fjármálum skal ávallt hafa eftirfarandi grunngildi að leiðarljósi: Sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi.“

Frú forseti. Loks segir um fjármálastefnuna sjálfa:

„Fjármálastefna er áætlun ríkisstjórnar um stöðu og þróun opinberra fjármála og áhrif þeirra á aðra hluta hagkerfisins, t.d. heimili og fyrirtæki. …

Megintilgangur fjármálastefnunnar er að stuðla að efnahagslegu jafnvægi til lengri tíma og skapa þar með betri forsendur fyrir hagkvæmari nýtingu fjármagns og auðlinda. Stefnan er jafnframt tæki stjórnvalda til að sýna hvernig markmiðum um stöðugleika og sjálfbærni opinberra fjármála verði náð. …

Með fjármálastefnunni eru sett fram almenn markmið um þróun opinberra fjármála sem breið sátt ríkir um. Þannig er gert ráð fyrir að markmið fjármálastefnunnar séu einungis endurskoðuð ef aðstæður eru óviðráðanlegar, svo sem vegna þjóðarvár eða alvarlegs efnahagsáfalls. Með þessu er stuðlað að efnahagslegu jafnvægi til lengri tíma og skapaðar forsendur fyrir hagkvæmari nýtingu mannafla, fjármagns og auðlinda.“

Frú forseti. Nú er sem sagt búið að leggja fram tillögu um breytingu á gildandi fjármálastefnu. Þegar núgildandi stefna var sett fram er varla hægt að segja að um hana hafi verið hin breiða sátt, sem tilgangurinn með fjármálastefnunni er. Núgildandi fjármálastefna var samþykkt með 32 atkvæðum, nei sögðu 16, tíu kusu að greiða ekki atkvæði og fjarverandi voru fimm þingmenn. Stefnan var harðlega gagnrýnd, ekki síst fyrir að hún byggðist á forsendum sem afar ólíklegt var að stæðust. Rekstrargjöld væru þanin út í hápunkti hagsveiflu sem þegar sæi fyrir endann á og að ekki væri nægt borð væri fyrir báru.

Á þessi rök var blásið sem svartsýnisraus, en annað er nú að koma á daginn. Þrátt fyrir þetta á enn að slá höfðinu við steininn í boðaðri endurbót fjármálastefnunnar og setja kíkinn fyrir blinda augað þegar nýendurskoðuð stefna er boðuð. Rökin sem nú eru sett fram fyrir nýrri stefnu eru þau að óvænt áföll hafi orðið og þau standist mælikvarða laganna um opinber fjármál um að einungis skuli endurskoða stefnuna ef aðstæður eru óviðráðanlegar, svo sem vegna þjóðarvár eða alvarlegs efnahagsáfalls, eins og áður var minnst á.

Því miður hlustaði ríkisstjórnin ekki í upphafi. Hún reisti borg sína á sandi og grípur nú til endurskoðunar á grundvelli þess að aðstæður séu óviðráðanlegar. Á hinn bóginn er í lögskýringu með lögunum um opinber fjármál tiltekið með skýrum hætti að fjármálastefna verði ekki endurskoðuð af þeirri ástæðu að markmið hennar náist ekki vegna almennra veikleika í fjármálastjórn hins opinbera við framkvæmd gildandi stefnu. Í skýringum við lögin er tiltekið í þessu sambandi að ef skilyrði fyrir endurskoðun fjármálastefnu eru ekki fyrir hendi er gert ráð fyrir að ríkisstjórn setji fram aðgerð í fjármálaáætlun til að tryggja að markmiðum fjármálastefnu verði náð. Það kemur í ljós þegar við fáum umsögn fjármálaráðs hvort skilyrði séu að hennar mati fyrir endurskoðun stefnu hæstv. ríkisstjórnar.

Frú forseti. Ekki hvarflar að mér, þó að hæstv. ríkisstjórn sé vissulega býsna mistæk, að kenna henni um fall WOW air eða loðnubrest, en hvorugt ætti að hafa komið henni svo mjög í opna skjöldu. Þegar voru teikn á lofti um mikla erfiðleika í rekstri WOW air og aflabrestur er eitt af því sem við Íslendingar höfum alltaf þurft að takast á við, þannig að það getur varla talist til slíkra óvæntra atburða. Hitt á ríkisstjórnin skuldlaust, að hafa ekki hlustað, og ætlar enn ekki að gera, á viðvörunarorð og málefnalega gagnrýni um það grundvallarplagg sem fjármálastefnan er. Enn á að halda áfram á sömu braut, þenja út rekstrargjöld ríkissjóðs, huga ekki að því að tekjustofnar standi undir útgjöldum, halda áfram að trúa því að niðursveiflan verði mjög væg og stutt — er það ekki kallað snertilending? — og síðan taki aftur við blóm í haga. En þessi afstaða mun því miður að öllum líkindum leiða til þess fyrr en seinna að ríkisstjórnin þurfi enn og aftur að óska eftir endurskoðun á fjármálastefnu sinni.

Það kann varla góðri lukku að stýra, frú forseti, en hæstv. fjármálaráðherra ver bæði fyrri stefnu og núverandi og segir: Ja, nú þurfum við að sameinast um að beita heilbrigðri skynsemi. Nú megum við ekki vera formalistar. Nú þurfum við að hafa góða raunveruleikatengingu. Hann segir að erfitt sé að spá um framtíðina og að við eigum að láta gott af okkur leiða.

Þá gæti fyrsta spurningin vaknað: Til hvers á þá að hafa stefnu af þessu tagi yfir höfuð ef það er raunverulega ekkert að marka hana? Síðan má kannski spyrja að því að ef þessum atriðum hefði verið beitt við gerð upphaflegu stefnunnar og menn látið heilbrigða skynsemi ráða, ekki vera of formalískir, vera raunveruleikatengdir og láta gott af sér leiða, hvort þá hefði kannski ekki farið betur en raun ber vitni.