149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir mjög góða ræðu og yfirferð yfir skilyrði og tilveru fjármálastefnunnar í skilningi laga um opinber fjármál. Það er tvennt sem ég myndi vilja koma að í andsvari. Annars vegar er eitt sem okkur vantar í þetta ferli og það er varðandi 9. gr. um horfur og þróun til lengri tíma, sem fjallar um líklega þróun samfélags-, atvinnu-, umhverfis- og byggðaþátta og lýðfræðilegra breytna sem útskýrir kannski af hverju okkur vantar langtímaskuldbindingar inn í fjármálastefnuna sem er dágóður slatti af því sem þarf að vera í fjármálastefnu til að við getum tekið einhverja upplýsta ákvörðun um hvort hún sé raunhæf eða ekki.

Hitt atriðið er hvort forsendur séu til þess að taka upp fjármálastefnuna þegar það á að uppfylla nokkur atriði, það verða að vera efnahagsáföll, þjóðarvá eða öll tiltæk úrræði ná ekki utan um vandamálið. Í því sé ég, og mig langar aðeins að velta því upp með hv. þingmanni, að ekki er gert ráð fyrir því að stofnað sé til frekari skulda, jafnvel þótt arðbær verkefni standi til boða fyrir það. Það er ekki tiltækt úrræði. Það virðist ekki vera tiltækt úrræði að stofna til aukinna tekna og það virðist ekki vera tiltækt úrræði að skera niður útgjöld. Það eru þau þrjú atriði sem eru tiltæk úrræði en eru slegin algjörlega út af borðinu, ekkert rökstutt af hverju þau eru slegin út af borðinu, af hverju þau eru ekki boðleg í raun og veru. Eftir stendur bara að ganga á afganginn og ég veit ekki hvað annað sem nær ekki öllum afgangnum, þ.e. mínusnum (Forseti hringir.) sem munar. Það eru 40 milljarðar sem munar en þetta nær ekki öllu þannig að ég vildi velta upp með hv. þingmanni þeim tiltæku atriðum sem virðist vanta.