149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:42]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví fyrir andsvarið. Með horfur til lengri tíma er náttúrlega alltaf erfitt að horfa langt fram í tímann og þess vegna eru settar upp stefnur, til að reyna að sjá þó fyrir það sem er hægt að sjá fyrir og gera ráð fyrir því að ýmislegt geti komið upp á.

Mér dettur í hug tvennt í því samhengi sem við stöndum nú frammi fyrir. Annað er risavaxið verkefni sem mun ekki gera annað, held ég, en að þyngja útgjaldahlið ríkissjóðsins, og það eru aðgerðir varðandi loftslagsvá. Ég held að það blasi við okkur öllum að þar mun þurfa aukin útgjöld. Annað mál sem er nær okkur í tíma er sennilega ekki eins stórvaxið en það vill þannig til að stórt viðskiptaland okkar er að ganga úr Evrópusambandinu, Bretland. Þar hafa talsmenn a.m.k. eins ríkisstjórnarflokks talað mjög mikið um mikil tækifæri sem í því væru fólgin. Ég sé í nýju hefti Peningamála, nr. 2/2019, talað um að sú sviðsmynd að Bretland gangi úr Evrópusambandinu án samnings, sem er farin að verða býsna líkleg, geti haft allt að því 0,5% neikvæð áhrif á hagvöxt á Íslandi. Mér sýnist (Forseti hringir.) að þá þegar séu strax upp etin þau 0,4% sem er verið að setja núna í óvissu í endurskoðaðri fjármálastefnu.