149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:59]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég er alveg sammála honum um að það er umhugsunarefni hvernig skuldastaða flugfélagsins WOW air gagnvart Isavia æxlaðist. Hér er um verulega háa upphæð að ræða, allt að 2 milljörðum kr., og fullkomlega óvíst hvort þessir fjármunir verði endurheimtir, auk þess sem ég er sammála hv. þingmanni um að svar hæstv. fjármálaráðherra vekur athygli þegar hann segir að þetta hafi eingöngu verið út frá viðskiptalegum sjónarmiðum.

Þá spyr maður: Var þá ekki verið að mismuna öðrum flugfélögum á Keflavíkurflugvelli með þessum aðgerðum þegar þetta eina fyrirtæki fékk þessa sérstöku fyrirgreiðslu frá ríkissjóði eða ríkisfyrirtækinu Isavia? Þetta er svo sannarlega hluti af því sem skoða þyrfti í þessum efnum. Það sem stendur þó kannski upp úr í öllu þessu er að hér erum við að endurskoða fjármálastefnu vegna þess að eitt fyrirtæki fór á hausinn og það varð loðnubrestur. (Forseti hringir.) Erum við virkilega komin á þann veg að við getum ekki orðið fyrir meiri skakkaföllum en þetta, að við þurfum að fara að endurskoða fjármálastefnu og mikil óvissa fram undan?