149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mig langar að taka undir með öðrum þingmönnum, þetta sætir nokkurri furðu, sérstaklega í ljósi þess að hér er brýnt tilefni til vandaðrar umræðu. Þessi umræða hefur ekki verið sérstaklega löng, hvað þá ómálefnaleg, þvert á móti mjög gagnleg umræða, um þann forsendubrest sem orðið hefur varðandi fyrri fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta er fyrsta skiptið sem sú staða kemur upp á Alþingi að ríkisstjórn þurfi að endurskoða fjármálastefnu sína frá grunni og ekki nokkur einasti stjórnarþingmaður tekur til máls um málið. Það er eins og hæstv. fjármálaráðherra sé látinn sitja einn uppi með þann glæp. Það er kannski ekki svo furðulegt að enginn vilji kannast við krógann, nema þá hæstv. ráðherra, en það væri vissulega gagnlegt (Forseti hringir.) ef fulltrúar meiri hlutans væru tilbúnir að vera með okkur að ræða þetta mikilvæga mál.