149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:06]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég ætla að taka undir með kollegum mínum. Við vitum öll að töluvert þarf til til að taka upp fjármálastefnu ríkisstjórnar til fimm ára þótt á daginn hafi komið núna að það er kannski minna en við héldum fyrir ekki svo löngu. Það breytir því ekki að erfitt er að útskýra kerfisbundna fjarveru stjórnarliða héðan úr þingsal úr umræðunni með öðru en því að annaðhvort þyki mönnum þetta svo léttvægt að umræðan sé óþörf — og það er erfitt að komast að þeirri niðurstöðu ef marka má greinargerð með þessari breytingartillögu og orð hæstv. fjármálaráðherra — eða þá að mönnum er svo illa brugðið við þessar aðstæður að þeir treysta sér ekki í umræðuna og láta hæstv. fjármálaráðherra hanga hér einan.

Talandi um það, þá sakna ég hæstv. fjármálaráðherra úr umræðunni. Hann hefur ekki látið sjá sig síðan eftir kvöldverðarhlé (Forseti hringir.) og mér þætti vænt um ef hann a.m.k. sæti hér, hlýddi á og tæki þátt í umræðunni. Helst af öllu vildi ég reyndar sjá fleiri stjórnarliða til að taka umræðuna um þetta stóra mál, held ég, þó að það sé erfitt að meta.