149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku og þarsíðustu var hér til umræðu þriðji orkupakkinn og þá fór hv. Miðflokkurinn í alveg ægilegt málþóf. Sá sem hér stendur hafði nokkra hluti að segja um þriðja orkupakkann. Og sá sem hér stendur fór í ræðu og fékk eitthvað fyrir það, ekki mikið, en fólk fór að velta fyrir sér í hvaða liði hann væri eiginlega: Hvernig stendur á því að hann tekur þátt í að tefja þessa umræðu? og allt það. Mér finnst svo leiðinlegt, virðulegi forseti, hvernig sjálfkrafa er litið á þátttöku í umræðu hérna eins og verið sé að tefja, sér í lagi þegar litið er svo á af hálfu stjórnarliða eða þeirra sem aðhyllast málið.

Ég fór í umræðu um þriðja orkupakkann, ekki milljón sinnum, kannski tvisvar eða þrisvar, man ekki hvort. Ég var með efnislega aðskildar ræður og það er hægt að greina þær. Þær voru ekki málþóf, ég átti engan þátt í því. En sjálfkrafa dæmir fólk það svo, bara vegna þess að það var umræða í einhverju sem ríkisstjórnin nennir ekki að tala um. Mér finnast það afskaplega slæm vinnubrögð. Þetta er, því miður, eiginlega normið hérna, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) En ég hvet hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans til að breyta þeirri menningu vegna þess að það eru einungis þeir, hv. þingmenn, sem geta það.