149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:16]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég tek bara undir með kollegum mínum sem komið hafa hér upp, það er frekar sorglegt að engir stjórnarliðar taki þátt í þessari umræðu. Mér finnst leiðinlegt að við séum komin á þann stað að við séum að flýta okkur svo ofboðslega mikið með þessi risastóru mál að stjórnarliðar koma ekki einu sinni hingað upp til að taka þátt í umræðunni. Af hverju? Af því að fólk er hrætt um að verið sé að tefja umræðuna á einhvern hátt. Það þarf að flýta þessu svo ofboðslega mikið í gegn.

Þetta er risastórt mál sem við erum að ræða hérna og salurinn er eiginlega hálftómur. Hérna eru engir stjórnarliðar, hæstv. fjármálaráðherra er hérna — já, það er einn. (Gripið fram í: Ég tek þátt í henni.) Já, það má alveg taka þátt í umræðunni. Við erum bara að biðja um málefnalega umræðu um risastórt mál og það er allt í lagi að vera hér og taka þátt í því. Við erum ekki að reyna að þæfa þetta mál út í hið endalausa. Við viljum hafa málefnalega umræðu og ég skora á stjórnarliða að spyrja og tala um málið.