149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í umræðunum hafa komið fram vangaveltur um að ástæðan fyrir þessari kerfisbundnu fjarveru stjórnarliða sé ekki endilega ótti við að taka þátt í umræðunni, ekki endilega að hún sé ekki þess virði, þetta sé of léttvægt mál til þess, heldur að það sé til að spara tíma. Það er áhugavert í sjálfu sér vegna þess að það er kannski ekki það fyrsta sem manni dettur í hug þegar verið er að ræða grundvallarplögg ríkisstjórnar, ég tala nú ekki um aðra atlögu að grundvallarplaggi.

Mér þykir mjög mikilvægt að fá sjónarhorn stjórnarþingmanna inn í þessa umræðu og því skal vissulega haldið til haga að formaður fjárlaganefndar og formaður efnahags- og viðskiptanefndar hafa a.m.k. komið upp í andsvör. Ég ætla að prófa að bjóða það fram að skipta út annarri ræðu minni fyrir ræðu þingmanns úr stjórnarmeirihlutanum (Forseti hringir.) og mér þætti vænt um ef einhver þingmaður Vinstri grænna gæti komið hingað inn og sýnt einhvern áhuga á þeim miklu tíðindum sem eru (Forseti hringir.) að verða í ríkisfjármálunum. En ég er sem sagt til í það og þá er tímaskorturinn ekki til staðar lengur.