149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mér finnst hæstv. fjármálaráðherra svolítið opinbera viðhorfið sem við erum að benda á að sé til staðar. Viðhorfið er að þessi umræða sé eitthvert formsatriði til að eyða tímanum, hún snúist bara um einhverja dagskrárleikfimi til að bíða þar til málið er komið í nefnd án þess að taka neina umræðu hérna. Ég veit ekki hvernig væri hægt að orða það skýrara en hæstv. ráðherra gerði sjálfur satt best að segja. Sömuleiðis kom 2. þm. Suðvest., Bryndís Haraldsdóttir, og virtist hafa eitthvað að leggja til málanna, eitthvað sem ég hefði mikinn áhuga á að heyra meira um og kannski spyrja út í, en þá finnst mér að hv. þingmaður ætti að vera á mælendaskrá.

Þannig finnst mér að umræðan eigi að virka. Ég get auðvitað bara talað fyrir sjálfan mig en í kringum allt þetta þriðja orkupakkarugl og þá stöðu sem er komin upp núna veit ég ekki hvernig stjórnarandstaðan hefði getað nálgast þetta á (Forseti hringir.) betri hátt með tilliti til þess að hafa hérna málefnalega umræðu. Mér finnst meiri hlutinn vera að glutra niður tækifæri til þess aðeins að bæta menninguna á Alþingi og það skal vera við meiri hlutann að sakast í þeim efnum.