149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra virðist ekki skilja er að hann keyrði hér í gegn og fékk stjórnarliða til að samþykkja óábyrga stefnu. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra virðist ekki hafa skilið gagnrýni fjármálaráðs sem var í mörgum liðum. Fjármálaráð sagði: Svona stefna stenst ekki, svona stefna mun setja kostnað á almenning, velferðarkerfið þarf að taka niðursveifluna ef stjórnarliðar ætla að samþykkja stefnuna.

Það er það sem fjármálaráð sagði. Það var í umsögn þess og þetta virðist fjármála- og efnahagsráðherra ekki skilja. (Gripið fram í.) Ég og við í Samfylkingunni hefðum undirbúið hagkerfið fyrir þá niðursveiflu sem var fyrirsjáanleg. Hún var fyrirsjáanleg. (Gripið fram í.) Það var ekki endilega fyrirsjáanlegt að flugfélag færi á hausinn en það var fyrirsjáanlegt að það kæmi niðursveifla í þeirri grein og jafnvel mátti gera ráð fyrir (Forseti hringir.) aflabresti. Við erum í þannig hagkerfi og við áttum að búa hagkerfið undir það. En það var ekki gert.