149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:58]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur ræðuna. Ég get ekki verið sammála þeim orðum hv. þingmanns að verið sé að varpa ábyrgðinni á hagspár. Því get ég ekki verið sammála. Þá værum við væntanlega bara að hunsa hagspána. Hv. þingmaður vísar í 10. gr. Í greinargerð með 10. gr. er talað um ef það verða skakkaföll í atvinnustarfsemi eða ófyrirséður tekjusamdráttur í þjóðarbúinu skuli ráðherra leggja fram endurskoðaða stefnu. Það er vegna þess að við náum ekki svo glatt markmiðum okkar án þess að ýkja niðursveifluna. Ef við gerum það erum við farin að ganga gegn grunngildum stefnunnar um sjálfbærni og stöðugleika. Það er ágætlega horfst í augu við þetta á bls. 7 í greinargerð sem ég skal koma inn á í seinna andsvarinu.