149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:01]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Nei, við erum ekki að keyra í halla, það er verið að keyra þetta í jafnvægi. Tekjur og útgjöld mætast í núlli en ef það fer verr en horfir er vissulega búið að byggja inn hér óvissusvigrúm til að treysta forsendur og umgjörð, sem ég tel að sé kannski stóra málið í þessari endurskoðuðu stefnu. Ég ætla í að vísa í greinargerðina á bls. 7, með leyfi forseta:

„Nú, þegar þessar forsendur hafa raskast mjög, virðist ástæða til að draga þann lærdóm af reynslunni að treysta þurfi umgjörðina á fyrirkomulagi stefnumörkunar og áætlanagerðar um opinberu fjármálin með því að byggja meira svigrúm inn í fjármálastefnuna, sem fari helst vaxandi eftir því sem líður á hana og óvissan verður meiri. Slíkt svigrúm þyrfti ekki nauðsynlega að vera lögfest …“

Spurningin lýtur að því að Svíar hafa unnið þetta sambærilega og ég veit að hv. þingmaður þekkir það mjög vel: Ætti slíkt óvissusvigrúm sem verið er að byggja hér inn í að vera pólitísk ákvörðun hverju sinni þegar ríkisstjórn leggur fram stefnu sína eða lögfest?