149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við erum hér af því að hagspáin var notuð sem lágmark í síðustu fjármálastefnu. Ekki var gert ráð fyrir þeim möguleika að það yrði niðursveifla á borð við það sem við stöndum frammi fyrir núna, sem þýðir efnahagsáfall eða þjóðarvá, samkvæmt skilgreiningu á því að þessi tillaga er lögð fram á þingi. Það er einfaldlega það sem við stöndum frammi fyrir fyrst þetta plagg liggur á borðinu.

Nú er skýrt fjallað um það í lögum um opinber fjármál hvenær fjármálastefna skuli tekin upp. Grípa þarf til allra tiltækra úrræða áður en farið er í endurskoðun á fjármálastefnu. Því sem ég hef kallað eftir. En miðað við þá greinargerð sem fylgir þessari tillögu er ekki útskýrt hvaða tiltæku úrræði standa til boða og af hverju þau duga ekki til þess að koma til móts við það efnahagsáfall eða þá þjóðarvá sem við stöndum frammi fyrir.

Þau augljósu úrræði sem ég sé eru að fara í niðurskurð. Aðeins er tæpt á því í greinargerðinni að það standi einfaldlega ekki til boða og fari gegn grunngildunum um stöðugleika og varfærni og því um líkt.

Að leggja fram nýja fjármálastefnu um það getur ekki útskýrt á fullnægjandi hátt þann galla sem var á fyrri stefnu. Mér finnst að þá þurfi að viðurkenna að fyrri fjármálastefna var með þeim innbyggða galla að hún gerði ekki ráð fyrir niðursveiflu.

Annar möguleiki er aukin tekjuöflun. Eftir því sem ég fæ best séð er ekki útskýrt af hverju það er ekki tækt úrræði að fara í aukna tekjuöflun. Við höfum heyrt í umræðum að verið sé að fresta bankaskattinum, að verið sé að hætta við skattalækkun í einhvern tíma, sem er ákveðið form tekjuöflunar. Það dugar ekki. Er eitthvað fleira hægt að gera? Af hverju er það ekki gert? Er ekki pólitískur vilji fyrir því? Er það þá bara staðan?

Að lokum er það lántaka. Ef við værum í umhverfi laga um opinber fjármál, eins og lögin kveða á um, værum við með forgangsraðaðan verkefnalista sem væri kostnaðargreindur og ábatagreindur. Með þann lista myndum við augljóslega sjá, miðað við þá milljarða sem upp á vantar, hvaða verkefni muni detta út, og við myndum sjá ábatann af þeim verkefnum. Þá gætum við hæglega borið saman hvort það væri kostnaðarsamt að taka lán á lágum vöxtum, eins og náðst hafa nýlega, og fara samt í þau verkefni. Þau yrðu ekki alveg eins arðbær út af vaxtagreiðslunum, en þau væru samt sem áður arðbær. Það er eitt sem fjármálaráð hefur bent á, að það sé líka hægt að gera upp á ákveðna aðhaldskröfu ef sýnt er að verkefnin sem verið er að fara í séu ábatasöm fyrir þjóðarbúið í heild.

Það er það sem mér finnst vanta í tillögu til þingsályktunar um breytingu á fjármálastefnu. Þetta er í raun og veru ný fjármálastefna. Mér finnst illa farið með lög um opinber fjármál þegar einhvern veginn er skautað fram hjá því að ný fjármálastefna á að vera til fimm ára. Heyrst hefur í nefndinni að það væri tilgangslaust að vera með fjármálastefnu lengra en fram í næsta kjörtímabil. En það er alveg jafn tilgangslaust að vera með fjármálastefnu inn í fortíðina. Ef nota á þá túlkun sem virðist hafa verið notuð í þessu tilviki, að það sé bara hægt að nota einhver ár fyrir fjármálastefnu, einhver fimm ár — af hverju þá ekki sautján hundruð og eitthvað, alveg eins og 2018? Það er í raun alveg jafn úrelt og einhver ártöl á síðustu öld.

Fjármálastefnan og fjármálaáætlunin sem er lögð fram á hverju ári til að uppfæra þær kostnaðaráætlanir sem verkefni og stefna stjórnvalda kosta, er lögð fram alveg fram á síðasta ár kjörtímabilsins þrátt fyrir að komið sé nýtt kjörtímabil, væntanlega með nýrri ríkisstjórn þar á eftir, af því að stjórnin ber þá ábyrgð að sýna á spilin. Ábyrgð stjórnvalda er að sýna hvernig efnahagshorfur geti verið hérna til nokkurra ára fram í tímann, en þá vantar líka langtímastefnu. Og enn og aftur, þegar ég held ræðu (Forseti hringir.) í fjárlagamálum sést í iljarnar á hæstv. fjármálaráðherra.