149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:41]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir andsvarið. Jú, það er nákvæmlega það sem ég óttast, það sem sagan hefur kennt okkur í gegnum tíðina. Þeir sem eiga fæstu málsvarana og geta lítið varið sig, þeir sem eiga sér ekki hagsmunagæsluaðila inni á Alþingi Íslendinga, það eru þeir sem eru venjulega teknir í bakaríið, svo það sé sagt.

Þannig að eðli málsins samkvæmt óttast ég það, því miður, að þetta muni bitna helst á þeim sem síst skyldi. Eins og ég nefndi áðan sé ég ekki, þótt nú sé júní rétt byrjaður, að þessi tiltekni hópur, öryrkjar, sem stendur langverst efnahagslega í samfélaginu í dag, eigi eftir að fá eina einustu krónu í kjarabót það sem eftir lifir árs. Ég óttast að það eina sem gerist sé að þeir verði frystir úti hér eftir sem hingað til.