149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:32]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefnir samgöngumálin og það er margt á því sviði sem kallar á opinbera fjárfestingu og ég sakna þess stundum í þessum sal að við tökum dýpri umræðu um að opinberar fjárfestingar geti í sjálfu sér skilað sér margfalt til baka. Samgöngubætur gera það svo sannarlega. Þess vegna er mjög sérkennilegt ef við skoðum fjármálaáætlun, sem við erum reyndar ekki að ræða núna, ef við berum saman fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, þróun næstu fimm ára, þá lækka fjárframlög til samgöngumála um 15% þrátt fyrir mikla þörf um allt land.

Ég tek sömuleiðis undir að það getur verið þörf á að lækka tryggingagjaldið. Ég hef lengi verið skotinn í þeirri hugmynd að reyna að lækka tekjuskatta á lítil og meðalstór fyrirtæki. Ég veit ekki alveg hvernig við getum útfært það en ég held að það væri svo sannarlega einnar messu virði að skoða hvernig við náum til lítilla fyrirtækja, nýsköpunarfyrirtækja og sprotafyrirtækja með skattalækkunum. (Forseti hringir.) Það er alla vega áhugavert að skoða hvernig við getum gert það, herra forseti.