149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:50]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanns þegar hún velti fyrir sér af hverju þingmenn stjórnarflokkanna eru ekki á mælendaskrá. Sumir hafa verið duglegir í andsvörum við okkur, það er gott og vel. En þeir hafa sagt, eins og hv. þingmaður bendir á, að þetta sé grundvallarplagg. Í því samhengi rifja ég upp þegar við vorum að ræða fjármálaáætlun í fyrra, þessa 5.000 milljarða, plaggið gerist ekki stærra, vorum við afskaplega dugleg í fjárlaganefnd að taka á móti umsögnum og gestum og komu fjölmargar athugasemdir um fjármálaáætlunina. Eftir alla vinnuna hjá fjárlaganefnd var ekki gerð ein einasta breyting í meðförum þingsins, þannig að sú vinna sem hér á sér stað er stundum algjört sjónarspil. Ráðherrarnir koma með sín plögg, hvort sem það er fjármálaáætlun eða stefna eða fjárlög, og þingið gerir lítið sem ekkert með þær athugasemdir sem við fáum. Það er áhyggjuefni fyrir allan þingheim. Menn kalla einhver plögg hérna grundvallarplögg og við setjum ekki mark okkar á þessi plögg.

Varðandi seinni vangaveltur hv. þingmanns um grunnreksturinn er ég ekki endilega sammála henni um að grunnrekstur hins opinberra sé orðinn of mikill. Okkur greinir kannski á þar, við erum ekki sammála að öllu leyti hvað það varðar. Ég hef kallað eftir frekari opinberum fjárfestingum, innviðauppbyggingu. Fjármálaráð hefur sömuleiðis gert það. En ég hef verið tilbúinn að tala um hvernig ég vil fjármagna það. Þess vegna leiðist ég alltaf yfir í umræðuna um skatta. Ég er alveg til í að segja: Ég vil fá aukna fjármuni til öryrkja, eldri borgara og námsmanna, en ég er líka tilbúinn að taka þá umræðu hvernig ég ætli að fjármagna það.

Ég er ekkert hræddur við að hið opinbera bólgni aðeins út þar sem það á við. Ég vil að sjálfsögðu að ríkið sé skilvirkt og að þar sé vel farið með fé, en ég held að þörfin sé mikil fyrir opinbera innviðauppbyggingu, sérstaklega eftir hrunið. (Forseti hringir.) Þess vegna þurfum við að taka umræðu í tengslum við hvernig við ætlum að fjármagna það og það hef ég gert ítrekað í dag.