149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er hægt að taka undir flest hjá hv. þingmanni. Það er rétt að draga það fram að við í Viðreisn fórum ekki af stað með bólgin kosningaloforð. Við gerðum það af ásettu ráði. Við vildum sýna fram á raunhæfa fjármögnun þeirra, og ég er ekki að segja að aðrir flokkar hafi ekki gert það líka, alla vega Samfylkingin. En það er ljóst að þegar flokkar sem óðu fram á síðustu stundu með 100 milljarða kosningaloforð, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri græn með ríflega 80 og Framsókn eitthvað aðeins minna, er það náttúrlega óábyrgt. Það er það sem kemur í hausinn á okkur með endurskoðun fjármálastefnunnar. Ég ítreka að það er ekkert að því að endurskoða fjármálastefnu, en það verður að vera gert á réttum forsendum og menn þurfa að vera heiðarlegir með það alveg frá byrjun.

Við í Viðreisn lögðum ákveðna áherslu á fáa mikilvæga þætti, m.a. að slá skjaldborg um velferðarkerfið, ekki síst félagsmálin og stöðu öryrkja. Það er hluti af grunnrekstrinum sem við þurfum að gæta að. En við höfum líka sagt núna í niðursveiflunni, og það kom m.a. fram í máli Þorsteins Víglundssonar áðan, að við verðum að huga að því að vera með ákveðið aðhald þegar kemur að grunnrekstrinum, um leið og við förum í að auka við innspýtingar í innviðafjárfestingu. Það er þar sem við eigum að nýta hagstjórnartæki okkar. Þannig eigum við að gera það og reyna að huga að öðrum hvötum, m.a. lækkun skatta, sem myndi þá fyrst og fremst beinast að heimilum en ekki síður að litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Það er nokkuð sem við eigum að skoða og ég vonast til þess að hv. fjárlaganefnd fari yfir nákvæmlega þá þætti sem skipta okkur gríðarlega miklu máli til að halda hagkerfinu gangandi þrátt fyrir þau hagstjórnarmistök sem gerð hafa verið á þessum skamma tíma, 17 mánaða líftíma einnar ríkisstjórnar.