149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:55]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanns þegar hún gagnrýnir það hvernig Sjálfstæðismenn töluðu í aðdraganda síðustu kosninga. Eins og ég vakti athygli á fyrr í dag var einn flokkur með töluna 100 milljarða í kosningaloforðunum sínum. Síðan hélt þessi blessaði flokkur landsfund þar sem talað var um mjög róttækan niðurskurð á opinberum útgjöldum. Einhvern veginn fór það ekki saman. Þessi flokkur lofar hingað og þangað. Hann ætlar að fá 100 milljarða í opinbera innviðauppbyggingu og ætlar um leið að skera niður í ríkisútgjöldum, þannig að maður áttar stundum sig ekki á því á hvaða leið Sjálfstæðisflokkurinn er hvað þetta varðar. Ég tek undir orð hv. þingmanns og gagnrýni hennar á þann flokk.

Varðandi hið opinbera og hvernig við stöndum að uppbyggingunni þar er eitt svið hins opinbera þar sem ég veit að við hv. þingmaður deilum áhyggjum og það er hvernig við nálgumst menntakerfið. Hv. þingmaður hefur oft bent á að hér þurfi að byggja upp miklu kröftugra menntakerfi, nýsköpun og rannsóknir, og ég hef talsverðar áhyggjur af því hvernig við stöndum að því. Við sjáum t.d. í fjármálaáætluninni að það er nánast engin fjármagnsaukning til framhaldsskóla næstu fimm árin þrátt fyrir að svokallaðir styttingarpeningar hafi átti að halda sér.

Ef við lítum á háskólastigið, er það mjög áhugavert í ljósi þess að í stjórnarsáttmálanum eru mjög bólgin loforð um að nálgast fjárveitingar annarra samanburðarríkja innan OECD og Norðurlandanna. En ef við tökum lánasjóðinn út fyrir sviga eru fjárframlög til háskólastigsins næstu fimm árin óbreytt, frá 2019–2024. Það er alveg þvert á það sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að segja. Það er kostnaðarsamt aðgerðaleysi, ef svo má segja. Við þurfum að stórefla menntakerfið og ég veit að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur ítrekað bent á það í ræðu og riti að við þurfum að gera miklu betur þegar kemur að uppbyggingu menntamála í þessu landi.