149. löggjafarþing — 115. fundur,  4. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[00:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, það finnst mér en það er alveg ljóst að meðan við höfum þá kyrrstöðuríkisstjórn sem við búum við, sem er gott og vel, hún er mynduð til að gæta ákveðinna hagsmuna og þau eru meira að segja frekar ófeimin við að verja þá, munum við búa við íslensku krónuna. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt þegar maður óttast að það sé uppgangur ákveðinna íhaldsafla, popúlistaafla eða hvað sem við viljum kalla það, þau eru á flugi, og svo koma Evrópukosningarnar. Allir gerðu ráð fyrir því að Brexit-sinnar og allir þeir myndu valta yfir allt en fólkið reis upp. Fólki ofbýður málflutningurinn, sú skrumskæling á lýðræðinu sem á sér stað, á staðreyndum, þær bullyrðingar sem hafa verið settar fram og fyrir vikið sögðu menn: Nei, þetta gengur ekki lengur. Menn fóru líka að tala um alvörumál sem skipta máli fyrir ungt fólk, hvort sem það eru gjaldmiðilsmálin, samstarf, ekki síst á sviði loftslagsmála, og unnu flokkar eins og græningjar sem eru mjög alþjóðasinnaðri alls staðar annars staðar en hér, vilja fara mjög djúpt inn í Evrópu, eru eins og þeir kalla, með leyfi forseta, „remainists“, t.d. í Bretlandi. Það sama á við með frjálslynda demókrata þar, þeir sóttu í sig veðrið, fengu meira að segja samanlagt fleiri atkvæði en Brexit-flokkur Farages en vegna óréttlátrar kjördæmaskiptingu fékk sá flokkur fleiri þingsæti.

Talandi um kjördæmaskiptingu er það kannski hluti af því að við getum farið að ræða af viti að það verði raunhæfar breytingar í gjaldmiðilsmálum og að það verði breytingar á kerfum sem fela í sér ákveðið innbyggt óréttlæti, þ.e. að þora að fara af stað með það að breyta kjördæmakerfinu hér á landi og jafna atkvæðisrétt.