149. löggjafarþing — 115. fundur,  4. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[00:35]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar að verja síðari ræðu minni í umræðu um fjármálastefnu til að fara yfir annars vegar af hverju þessi endurskoðun fjármálastefnunnar var algjörlega fyrirsjáanleg og af hverju var verið að vara við því á sínum tíma þegar hún var sett að hún væri óraunsæ og af hverju núverandi stefna sem er verið að ræða er að sama skapi óraunhæf og byggir enn á allt of bjartsýnum efnahagsforsendum.

Byrjum á fyrirsjáanleika á falli síðustu fjármálastefnu. Raungengi var hér í hápunkti í árslok 2017 og það var varað við því þegar var verið að ræða gildandi fjármálastefnu að hægt væri að telja út í síðustu fjórum efnahagssveiflum fjóra jafn háa raungengispunkta sem allir enduðu með myndarlegri leiðréttingu, gengisfalli, verðbólgu og kólnun í hagkerfi í kjölfarið.

Það er nefnilega íslenska sveiflan í hagkerfinu, þegar hagkerfið fer af stað eru vextir hækkaðir, gengið styrkist, laun hækka gjarnan mikið, kaupmáttur eykst enn frekar út af gengisstyrkingu og svo kynda ríkisfjármálin með mikilli útgjaldaaukningu á þenslunni enn frekar þar til að gengistryggingin grefur undan útflutningsgreinunum okkar, gengið fellur á endanum, verðbólgan fer af stað, einkaneysla dregst saman og á endanum þarf að draga saman í ríkisfjármálunum líka sem eykur enn frekar á niðursveifluna. Þetta er hin síendurtekna íslenska hagsveifla sem við virðumst ekki ætla að læra mikið af.

Þetta er nákvæmlega það sem er að gerast hér enn eina ferðina. Það er þess vegna sem við verðum að horfast í augu við það að niðursveiflan sem við erum að byrja að sigla inn í núna verður alvarlegri en ráð er fyrir gert. Við eigum nefnilega eftir að sjá hinar afleiddu afleiðingar af gengisfallinu með vaxandi verðbólgu og slæmri stöðu útflutningsgreinanna sem enn hafa ekki jafnað sig og við sjáum m.a. hvað best á yfirlýsingu ferðaþjónustunnar sjálfrar sem hefur verið drifkrafturinn í hagkerfinu okkar á undangengnum áratug eða svo, þar sjá menn ekkert fram á batnandi tíma. Þvert á móti sjáum við einmitt að þrátt fyrir væntingar um að flugframboð myndi aukast á móti falli WOW fáum við — hvaða fréttir? Delta hættir flugi til og frá landinu í vetur sem var 10% af flugframboðinu t.d. á Ameríkumarkaði, sem sagt til New York sem er með stærstan hluta Ameríkumarkaðar. Erlenda flugfélagið EasyJet dregur sömuleiðis úr framboði sínu hér í vetur.

Byggingarmarkaðurinn er byrjaður að sýna merki kólnunar. Verðbólga er enn á uppleið. Við verðum að átta okkur á því að við erum að fara á tiltölulega skömmum tíma úr 2% verðbólgu í tæplega 4% verðbólgu. Gengið er enn að veikjast og þess vegna sjáum við ekki fyrir endann á þeirri kólnun sem við erum í í hagkerfinu í dag. Við sjáum að einkaneyslan er að veikjast. Þó að stoðir hagkerfisins séu sterkar á þessi niðursveifla eftir að ganga sinn veg á enda og verða alvarlegri en hér er ráð fyrir gert. Þess vegna er vert í umfjöllun um fjármálastefnuna núna að horfa til þeirrar fráviksspár sem Seðlabankinn hefur unnið á því hver staðan gæti orðið í hagkerfinu ef t.d. veikleikar ferðaþjónustunnar verða meiri, eins og öll teikn á lofti eru um. Seðlabankinn horfir í sinni fráviksspá til tveggja aðskilinna sviðsmynda sem báðar tvær verða að teljast æðilíklegar núna, annars vegar að Brexit verði svokallað hart Brexit án samnings og mat Seðlabankans er að það muni þýða 0,4–0,6% minni landsframleiðslu á ári komandi þrjú, fjögur ár, eingöngu vegna þessa höggs, og hins vegar að verði samdrátturinn í ferðaþjónustunni meiri en núverandi hagspá gerir ráð fyrir, sem ég ítreka enn að alvarleg teikn eru á lofti um og ferðaþjónustan sjálf telur að sú verði raunin, verði hagvöxtur hér um 1–1,2% minni á ári hverju næstu þrjú til fjögur árin. Þetta tvennt samanlagt samsvarar höggi upp á 1,5–2% í hagvexti á ári hverju. Það er mjög mikið högg og myndi þýða uppsafnað afkomuhögg á ríkissjóð til viðbótar við það sem er þegar gert ráð fyrir, versnandi afkomu upp á eina 40 milljarða á ári upp á stærðargráðuna 40–80 milljarða á ári til viðbótar í afkomu ríkissjóðs.

Það er það sem við erum að tala um þegar við segjum að rík ástæða sé til að sýna meiri varfærni í ríkisfjármálunum en hér er gert. Ég þykist vita, sérstaklega af umræðuleysi meiri hlutans um þessa fjármálastefnu, að skellt verði skollaeyrum við þeim hættumerkjum (Forseti hringir.) eins og hinum fyrri og að við munum standa hér að ári að ræða nýja fjármálastefnu ríkisstjórnar.