149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[11:51]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið en vil þó koma í ræðustól til að fagna þessum áfanga. Ég lít á það sem áfanga að lagt sé fram frumvarp sem byrjar á að minnka þær skerðingar sem hafa verið mikið til umræðu og kallaðar eru króna á móti krónu skerðingar.

Ég tel að með framlagningu frumvarpsins sé stigið mikilvægt skref og hæstv. ráðherra hefur m.a. nefnt í ræðu í dag að frekari endurskoðun og ítarlegri en hér er, þar með talið til einföldunar á kvótakerfinu, verði síðan tekin fyrir á næsta þingi. Ég hlakka til að taka á því. Þetta mál er hins vegar þannig vaxið að legið hefur í loftinu í alllangan tíma að það ætti að taka það fyrir í þinginu. Í hv. velferðarnefnd eru m.a. tveir þingmenn sem voru í sérstakri nefnd á vegum ráðuneytisins sem fór yfir þau mál þannig að þekkingin er þar til staðar á aðdraganda málsins. Ég tel að hv. velferðarnefnd eigi að geta unnið þetta mál hratt og vel. Það er hins vegar með tilliti til jaðarhópa eða þeirra sem gætu lent á köntunum í kerfinu sem hann nefndi sérstaklega að þarf að athuga og fara yfir og ég trúi því að fulltrúar ráðuneytisins og Tryggingastofnunar muni geta aðstoðað nefndina við að fá skýra mynd af stöðunni.

Það er jákvætt í frumvarpinu að í rauninni sé tekin ákvörðun um að dreifa yfir allt þetta almanaksár þessum fjárhæðum, þeim 2,9 milljörðum sem til ráðstöfunar eru, og gott að sjá að peningarnir fara þá í vinnu yfir allt árið. Þess vegna er einmitt mikilvægt að klára málið núna, á þessu vorþingi, fremur en að ýta því fram á haustið því að það er að mínu viti algjörlega ástæðulaust að láta þá sem munu njóta þeirra aukagreiðslna sem koma til vegna frumvarpsins bíða að nauðsynjalausu.

Ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni og hæstv. forseta, Steingrími Jóhanni Sigfússyni, sem nefndi áðan í andsvari að auðvitað gerir þessi breyting ekki mikið fyrir þá allra lakast settu og gerir í rauninni ekkert fyrir þá allra lakast settu. Það vona ég hins vegar að komi til í því frumvarpi sem ráðherra boðaði áðan, að þá verði það skoðað sérstaklega hvernig megi halda áfram að styðja við þá sem lakast eru settir í samfélaginu og hafa enga aðra tekjumöguleika. Ég hlakka alla vega fyrir mitt leyti til þeirrar vinnu.