149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[14:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Létt og góð viðbót við nauðsynlegt mál. Aðeins meira til að setja hlutina í samhengi eru til dæmi um að myndir sem fólk hefur á samfélagsmiðlum til að sýna sjálft sig, bara andlitsmynd eða mynd af því í einhverjum skemmtilegum aðstæðum, hafi verið teknar út, teknar niður af því að einhver sendi DMCA-tilkynningu um þær myndir: Þín mynd var tekin niður af því að einhver annar bað um það og þú þarft að standa í gríðarlega miklum vandræðum með að segja: Nei, þetta er mín mynd. Þetta er bara sjálfa sem ég tók og er bara mín mynd. — Það er ekkert smáræðisferli sem fer í gang við það. Ég hef alveg heyrt nokkur dæmi um slíka vegferð sem fólk hefur þurft að lenda í, bara út af því að einhver sendi viljandi og í ekki góðum tilgangi svona tilkynningu.

Í stærra samhenginu er mjög gaman að fara yfir þær tækniframfarir sem leiða okkur til internetsins og tengsl þeirra við höfundarétt. Ég fór yfir þetta t.d. á námskeiði sem ég fór á í náminu mínu sem fjallaði um internetið og samfélagið og hvaða áhrif tækniframfarir hafa á samfélagið í heild sinni. Þar var t.d. farið yfir það að farið var að dreifa nótnablöðum höfundar eða hljómsveitar út um allt þar til allir gátu allt í einu farið að spila tónlist þeirrar hljómsveitar. Það var alveg ómögulegt, það varð að gera eitthvað í því. Eins og kom hérna fram áður kom grammófónn síðan og þá spáði fólk — af því að Darwin var mikið í umræðunni þá — að menn myndu bara þróa burt raddböndin, ekki þyrfti að nota þau lengur. Það voru alls konar svona pælingar. Alls konar dómsdagspælingar hafa fylgt öllum tækniframförum sem varða ákveðin samskipti og miðlun á efni í mjög langan tíma.

Ég setti upp hugsanatilraun, „thought experiment,“ með leyfi forseta, á ensku þar sem ég ímyndaði mér heiminn ef við myndum spóla til baka með tæknina. Við höfum öll eða flest hérna upplifað heiminn án internets, t.d. fyrir tíma snjallsíma, hvernig var bara hægt að ná í fólk í gegnum landlínu, hvernig þurfti að panta símtöl til útlanda, hvernig var að vera í samskiptum við fólk og fjölskyldumeðlimi í útlöndum þegar það var í námi eða bjó þar, það var allt miklu flóknara. Ákveðin samskiptatækni felst í internetinu og þróun er í þeirri samskiptatækni allt frá því að bréfasamskipti komust á þegar við hættum að vera með hlaupara, maraþonhlaupara, sem fóru á milli og skiluðu skilaboðum. Eða póstþjónustuna, við erum enn þá að glíma við hana og eigum eftir að sjá hvernig næstu skref hennar verða á tímum internetsins, hvernig sem sagt upplýsingar dreifast og hversu hratt þær dreifast út um allan heim og áhrif þeirra á höfundarétt sem kemur að vísu mun seinna.

Allar tækniframfarir sem hafa stytt tímann sem fólk getur haft samskipti á milli sín og dreift upplýsingum — það verður aldrei möguleiki að hætta við þær framfarir, segja allt í einu: Nei, snjallsíminn er slæm hugmynd, við skulum fara aftur í að vera eingöngu með landlínusímann. Eða internetið — nei, það var bara slæm hugmynd. Við skulum hætta við það og fara aftur í að vera bara með póstþjónustu og skrifuð bréf. Sleppum ritvélinni líka o.s.frv.

Þessar tækniframfarir eru komnar til að vera og áhrif þeirra á samfélagið eru ótvíræð á það hvernig við höfum samskipti af því að mannlegt samfélag gengur út á samskipti manna á milli. Sú tækni sem hefur gefið okkur möguleika að eiga samskipti hraðar, oftar og meira, fer ekkert. Við höfum þróast frá því að geta verið með samskipti þar sem einn talar við marga þar sem einhver þurfti að fara út á torg og tilkynna öllum eitthvað, las upp eitt bréf. Það er svipað og útvarp, og sjónvarp að vissu leyti líka, þar sem einn tilkynnir mörgum. Allir hinir sem hlusta, þetta er svona ákveðin predikun, geta ekki svarað til baka. Internetið bætir við, nú eru allt í einu komin fram og til baka samskipti á millisekúndum. Þetta hefur áhrif á samfélagið og þann grunn sem höfundalög og höfundaréttindi byggjast á af þeirri einföldu ástæðu, sem alltaf hefur verið, að auðveldara er orðið að afrita. Það var handverk að afrita nótur einu sinni, það þurfti að skrifa þær, svo kom prentvél, þá var hægt að prenta nótur og slíkt. Hægt var að taka upp höfundavarið efni, afrita það mun auðveldlega. Nú er þetta orðin nær fullkomin afritun með sama og engum kostnaði. Það er það sem hefur oft staðið í vegi fyrir ákveðnu verðmætamati á hvað afrit kostar. Ef það er eiginlega ókeypis að gera afrit, af hverju þarf ég þá að borga svona mikið fyrir það? Af hverju þarf ég að borga jafn mikið fyrir afrit sem kostar sama og ekkert að gera, rafrænt afrit af bók eða hljóðverki og ég þurfti að borga þegar ég var með alvöruafrit, eins og pappírsbók sem er augljóslega gerð úr efni sem kostar, sem sagt úr varanlegu efni? Ef maður brennir það fer það, en það kostar ekkert að búa til rafræna afritið. Þetta breytir óhjákvæmilega ákveðnu verðmætagildi hjá fólki hvað það þýðir að afrita slíkt höfundavarið efni. Við verðum að aðlagast til að taka tillit til þess. Það hefur gerst á undanförnum árum, það hafa komið upp veitur sem miðla stafrænu efni á miklu aðgengilegri og ódýrari hátt, samanber lækkandi kostnað við það að gera afrit.

Á heildina litið hefur þessi iðnaður hugverka stöðugt verið að berjast við nýjar tækniframfarir en sú barátta hefur alltaf tapast og niðurstaðan samt verið einhvers konar hugverkavarinn iðnaður, bara í nýju umhverfi. Það er vonandi að næst þegar það gerist, sem er alveg óhjákvæmilegt líka, taki hugverkaiðnaðurinn þátt í að móta framtíð hugverka í þeirri framtíð, þ.e. að í staðinn fyrir að berjast á móti tækniframförunum verði það mótað með öllum hinum í rauninni sem taka þátt í þeim tæknibreytingum.

Það er ánægjulegt að við séum komin hingað loksins með þetta og það er meira eftir, við vitum það alveg, en þetta er alla vega jákvætt miðað við núverandi forsendur.