149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

rafræn auðkenning og traustþjónusta fyrir rafræn viðskipti.

634. mál
[15:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mál um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti. Eins og margt gott kemur þetta mál með reglugerð Evrópusambandsins. Ef það hefur farið fram hjá einhverjum kemur ansi margt gott þaðan, sér í lagi þegar um er að ræða flókin og tæknileg mál, þ.e. mál sem eru flókin og tæknileg fyrir þeim sem ekki þekkja sérstaklega til. Nú ætti ekki að álasa neinum fyrir að þekkja ekki sérstaklega til þessara mála vegna þess að þetta er tiltölulega nýupptekin tækni. Hún er í sjálfu sér ekki gömul en það er frekar nýtt, í það minnsta á Íslandi, að hún sé notuð í þeim mæli — maður myndi búast við því að hinn almenni borgari hefði rekist á hana eða alla vega heyrt um hana.

Það er samt þannig með alla nýja tækni að á henni eru kostir og gallar sem er afskaplega mikilvægt að löggjafinn og yfirvöld séu meðvituð um, sem og hinn almenni borgari, vegna þess að of mikil þekking á tækninni í höndum yfirvalda sem borgarinn hefur ekki, getur lýst sér í valdaójafnvægi sem gerir yfirvöldum mögulegt eða auðveldara fyrir að brjóta með einhverjum hætti á borgaranum eða að láta það ógert að verja réttindi borgarans. Það sama gildir um þetta og alla svokallaða galdratækni, að mínu viti.

Mig langar aðeins að tala um galdratækni. Þegar ég segi galdratækni á ég við tækni sem er svo langt út fyrir þekkingarsvið hins almenna notanda að hann gæti ekki gert greinarmun á þeirri tækni og göldrum nema með þeirri viteskju að í samfélaginu séu ægilega snjallir vísindamenn hér og þar sem skilji hvernig hlutirnir virka raunverulega. Ef hinn almenni borgari hafði skilning á rafmagni, einföldum grunnatriðum rafmagnsfræðinnar gat hann alveg skilið ýmsa tækni í heimahúsum, gat rifið vídeótækið í tætlur eða eitthvert annað tæki sem var á heimilinu, og þar áður, ef fólk hafði séð vindmyllu eða myllu sem nýtir vatnsorku eða eitthvað því um líkt þurfti ekki mikið meira af þekkingu til að borgarinn gæti vitað um hvers konar tækni um væri að ræða eða í rauninni hvers megnug sú tækni væri.

Þegar kemur hins vegar að nútímatækninni eru á ferð hlutir eins og hreyfiskynjarar, stafrænar myndavélar, snjallsímar, með öllu því sem þeir hafa, staðsetningarbúnaði og þess háttar. Það eru tæki sem varða mjög flókna eðlisfræði og mjög flókna tækni sem tekur jafnvel mörg ár að öðlast grunnskilning á. Það þýðir að ekki er alveg ljóst hversu vel borgarinn þekkir möguleikana sem þessi tækni býr yfir. Mér finnst það ákveðið áhyggjuefni og eina lausnin sem ég þekki, af því að við förum ekki að draga úr nýtingu yfirvalda á tækninni, er að borgarinn öðlast meiri þekkingu á efninu. Með öðrum orðum legg ég til að það sé afskaplega mikilvægt að þegar við lítum til menntunar, hvort sem það er í heimahúsum eða hjá hinu opinbera, að við kennum vísindi og tækni betur og meira en nokkru sinni fyrr. Það skiptir verulegu máli, ekki bara upp á það að börnin okkar fái vinnu þegar þau eru komin á okkar aldur, heldur bara svo þau séu þess megnug að verja réttindi sín og skilji hvað felist í því að yfirvöld tileinki sér tækni á borð við rafræn auðkenni.

Að því sögðu eru rafræn auðkenni, rafrænar undirskriftir og dulkóðun nátengd tækni og mjög vannýtt af yfirvöldum á Íslandi, og vannýtt almennt í samfélaginu. Það hefur batnað mikið og hratt. Bankarnir nota rafræn skilríki og svo er náttúrlega vefsetrið island.is sem er mjög til sóma á flestan hátt. Þar er hægt að nota rafræn skilríki og hægt er að nota rafræn skilríki mjög víða í samfélaginu sem er mjög jákvætt. Það er samt sem áður ekki alveg orðið almennt. Í raun og veru ætti maður að spyrja: Hvers vegna notum við eitthvað annað? Ef markmiðið með undirskrift er að staðfesta að einstaklingurinn sé í raun sá sem hann segist vera er engin ástæða til að nota ekki rafræn auðkenni. Það er engin ástæða til að nota gömlu leiðina. Mér hefur skilist af spjalli mínu við stjórnmálamenn í Eistlandi að þar skrifi fólk ekkert undir, að þar sé fólk bara með rafræn skilríki, og meira að segja séu mál sem samþykkt eru af ríkisstjórn undirrituð með rafrænum skilríkjum, ráðherrar á ríkisstjórnarfundi sem leggja fram mál kvitta sem sagt undir með rafrænum skilríkjum. Virkar það ekki svolítið langt inni í framtíðinni á Íslandi? Mér finnst það virka þannig. Ég skil að bankakerfið sem svamlar í peningum og aðrir aðilar í samfélaginu sem vinna mikið með tækni og tækniframþróun taki þessa tækni upp, en þegar kemur að íhaldssamari stofnunum eins og Alþingi eða hinu opinbera sé alltaf sú íhaldssemi sem ég fjallaði um nýlega, sem kemur í veg fyrir að fólk sjái möguleikana sem eru til staðar, hversu nálægt þeir eru, hversu auðvelt er að nýta þá og hversu sjálfsagt væri að nýta þá.

Svo ég bakki yfir í hitt er líka ákveðin hætta á því að við leiðumst út í þannig samfélag þar sem er gert ráð fyrir því að rafræn skilríki séu notuð við alla iðju. Ég verð t.d. að segja að þrátt fyrir að einstaka góðan hlut megi segja um vefsetrið Facebook, að mínu mati mjög fáa og ekki nærri jafn marga og hægt að segja vont um það vefsetur, hryllir mér svolítið við tilhugsuninni um að slík vefsvæði þar sem borgararnir skiptast á skoðunum og deili þar jafnvel tilfinningum sínum krefjist rafrænnar auðkenningar. Mér finnst mikilvægt að við hugsum það til enda að ef við erum farin að ætlast til þess að rafræn auðkenni séu notuð alltaf þegar við eigum mannleg samskipti erum við í reynd búin að útrýma nafnleysi. Þá þurfum við að fara að velta fyrir okkur hvað felist í nafnleysi. Hversu mikið viljum við hafa af því? Hvers vegna? Og er það ekki mikilvægur réttur? Ég átta mig á því að ef maður ætlar að skrifa grein í Morgunblaðið er ætlast til þess að maður skrifi undir fullu nafni. Það er vegna þess að það er umræðuvettvangur sem hugsaður er þannig að sá sem skrifar á að viðra skoðun sína og vera reiðubúinn til að taka þátt í opinberri umræðu um hana.

Hvað með opinberar játningar? Hvað með bréf sem fara til hinna og þessara sálfræðinga eða sérfræðinga sem ráðleggja fólki opinberlega um persónuleg málefni, tilfinningar, jafnvel kynlíf eða eitthvað því um líkt, vímuefnanotkun? Ef alltaf er gert ráð fyrir því, alls staðar í samfélaginu, að rafræn auðkenni séu notuð óttast ég, — nei, ég get ekki sagt að ég óttist það mikið, en mér finnst mikilvægt að hafa það í huga að með tímanum fari borgarinn að venjast því að hann þurfi alltaf að sanna hver hann er til að taka þátt í mannlegum samskiptum. Það er þróun sem ég vil ekki sjá. Nafnleysi skiptir máli. Mig langar meira að segja að fara yfir í aðeins öfgafyllri dæmi, sem við þurfum sem betur fer ekki mikið að pæla í á Íslandi akkúrat núna en gætum mjög auðveldlega þurft að pæla í seinna meir og sem pæla þarf í í öðrum Evrópuríkjum, Evrópusambandsríkjum, og það er þátttaka í pólitískri umræðu.

Ég segi fyrir sjálfan mig að ég myndi ekki þora að tjá skoðanir mínar í Ungverjalandi í dag ef ég þyrfti að nota rafræn skilríki til að skrá mig inn á slíkt vefsvæði. Ég myndi bara ekki þora það af ótta við ofbeldi, reyndar af ótta við yfirvöld líka vegna þess að yfirvöld Ungverjalands eru gjörsamlega að ganga af göflunum. Og það er Evrópuríki, það er Evrópusambandsríki sem er mjög nálægt okkur. Ég er ekki heldur viss um að ég myndi þora það í Póllandi. Ég myndi þora það aðeins frekar en ekki eins og hér.

Þegar við erum komin á þann stað í pólitíkinni að heiftin nær þvílíkri stærðargráðu að það er erfitt að tjá sig opinberlega af ótta við neikvæðar afleiðingar, ef ekki af hálfu yfirvalda, þá af hálfu einhverra brjálæðinga úti í bæ, er mjög mikilvægt að hinn almenni borgari sé þátttakandi í pólitískum umræðum sem stóli ekki á rafræn auðkenni, heldur stóli þvert á móti á að þeir sem taki þátt í umræðunni geti notið nafnleyndar, þurfi ekkert endilega að gera það en geti það. Það sem meira er er að slíkur vettvangur þar sem hægt er að vera nafnlaus til að taka þátt í umræðum má ekki einungis vera fyrir það fólk sem vill njóta nafnleyndar. Það þarf að vera hinn almenni vettvangur. Sem dæmi gætum ég og tveir aðrir hv. þingmenn Pírata léttilega sett upp eitthvert spjallsvæði þar sem við þrír gætum spjallað saman í nafnleysi og samt í öryggi og boðið öllum öðrum með, en það yrði aldrei hluti af hinni opinberu umræðu. Til þess þyrfti spjallsvæði á borð við Facebook, Youtube eða eitthvað því um líkt, vegna þess að þessi vefsvæði ná til almennings. Nafnleysið þarf ekki bara að vera einhver lagatæknilegur möguleiki sem einn og einn tölvunörd úti í bæ getur upp komið fyrir sjálfan sig og sína vini, það þarf að vera meginreglan í opinberum skoðanaskiptum.

Ég ætla að endurtaka þetta: Nafnleysið eða möguleikinn á nafnleysi þarf að vera meginreglan í opinberum umræðum og opinberum samskiptum.

Ef kalla á eftir rafrænni auðkenningu á fólki sem tekur þátt í pólitískum umræðum þarf að gefa ástæðu fyrir því. Það þarf að vera einhver skýr, lögmæt og málefnaleg ástæða fyrir því og þá verður líka að vera hægt að gera undantekningar af þeim ástæðum sem ég hef hér nefnt.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti. Mér fannst bara rétt að koma aðeins inn á þetta vegna þess að hér er um galdratækni að ræða og löggjafinn á sér sögu um að stíga feilspor þegar ekki er hugað að öllum þáttum þar að lútandi. Mér þykir þetta gott mál. Ég hlakka til að sjá það fara í gegn og vona að rafræn auðkenni verði meira notuð hjá hinu opinbera sem og einkaaðilum í framtíðinni með öllum þeim fyrirvörum sem ég hef hér nefnt.