149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og vil lýsa ánægju minni með þetta góða yfirlit sem hann hefur frætt okkur um og rifjað upp fyrir okkur hvernig við byggðum upp raforkukerfi okkar, orkuvinnslu, virkjanir og annað slíkt. Þetta er búið að vera mjög fróðlegt og mikilvægt innlegg inn í þessa umræðu.

Ég er hér með allar umsagnir sem komu fyrir nefndina og hef bundið inn í sérstaka bók. Þar kemur ýmislegt fróðlegt fram. Þar rakst ég einmitt á umsögn frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Náttúrufræðistofnun leggst ekki gegn samþykkt þriðja orkupakkans vegna þess að ekki er búið að leggja sæstreng. Hún tekur í raun og veru ekki afstöðu gagnvart þessu máli.

Ég sé að tíminn líður hratt (Forseti hringir.) en mig langar að koma aðeins inn á umhverfismálin, hv. þingmaður. Hafa þau ekki fengið allt of litla umræðu í kringum þetta mál?