149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Mig langar að spyrja hann. Nú er það þannig að margir eða sumir fylgjendur þessa máls hafa gjarnan talað niður til þeirra sem hafa áhyggjur af málinu, vísa jafnvel til þess að þetta séu einhverjir gamlir karlar og fólk af gamla skólanum o.s.frv. Mér þykir leitt ef viðkomandi er að heimfæra slíkt upp á heilu stéttirnar eins og bakara og grænmetisframleiðendur.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi þekkingu og skilning á því hvers vegna t.d. grænmetisbændur, sem eru miklir notendur raforku, leggjast gegn innleiðingu þriðja orkupakkans? Er það e.t.v. vegna þess að reynsla þeirra af því að innleiða orkustefnu Evrópusambandsins á Íslandi, sem við hefðum í rauninni aldrei átt að byrja á, er sú að það hafi leitt til þess að raforkuverð hækkaði hjá þeim og þeir óttist að það haldi áfram að hækka?

Þá fer maður að velta því fyrir sér hvort það eitt sé ekki næg ástæða til að staldra við áhyggjur þessara góðu einstaklinga, kvenna og manna, sem framleiða grænmeti og blóm fyrir Íslendinga. Ef við göngum svo langt að deila fullveldinu, deila orkunni með Evrópusambandinu, deila stjórnuninni með því, verðinu, magninu o.s.frv., eins og þingmaðurinn nefndi, þá erum við hugsanlega líka að deila með öðrum þeirri forystu sem við höfum haft hér til þess að laða að atvinnulífið og efla atvinnulífið. Það eru heilu tegundir t.d. af grænmeti sem ekki eru fluttar inn vegna þess að gæðin eru svo mikil á Íslandi þrátt fyrir mikinn kostnað. Þá velur fólk það frekar.