149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:03]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir með hv. þm. Loga Einarssyni. Mér finnst mjög merkilegt að dagskrá þingsins sé breytt í skjóli nætur án samráðs við þingflokksformenn. Ég velti fyrir mér hver tilgangurinn sé með fundum forseta við þingflokksformenn ef það stenst svo ekki sem forseti segir þingflokksformönnum og hann lætur þá ekki vita af breyttum fyrirætlunum. Mér finnst mjög erfitt að átta mig á því hvort það sé hægt að reiða sig á það sem forseti segir þingflokksformönnum, ef hann segir eitt einn daginn, skiptir algjörlega um kúrs, kúvendir og lætur engan vita af því. Hvernig eigum við að taka mark á því sem við okkur er sagt, að það standist? Hvers vegna vorum við ekki látin vita af þessu?