149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hæstv. forseta fyrir þessa dagskrá. Ég verð að segja að ég er orðin mjög þreytt á bullyrðingum Miðflokksins um þriðja orkupakkann og ég hef heyrt að margir aðrir hv. þingmenn hér inni séu sama sinnis þannig að ég fagna því mjög að geta farið að ræða hér góð og gild mál, mál sem reyndar hafa verið á dagskrá þingfundar örugglega síðustu tvær vikurnar. Ég held að það sé ágætt að þeir sem kunna að vera að hlusta átti sig á því að þótt talað sé um óútreiknanlega dagskrá hefur þessi dagskrá legið fyrir dögum og vikum saman. Það eina sem gerðist núna var að það var ákveðið að færa mál sem hefur verið hér í einhverri þrætukeppni í þessum sal neðar á dagskrána.

Ég fagna því mjög ef við getum farið að ræða þau góðu mál sem mér sýnist líka vera ágætissamstaða um. Hér eru mál til 3. umr. sem við greiddum atkvæði um í gær. Hér er mál sem Píratar lögðu fram um lækkun virðisaukaskatts á tíðavörum og getnaðarvörnum, hér er áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi, áætlun um íslensku sem opinbert mál. Hér er fullt af góðum málum. Ég trúi því ekki að þingheimur vilji ekki hefjast handa við að klára þessi góðu mál og ná þeim í gegn. (JÞÓ: Til í það.) — Gerum það þá.