149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[11:42]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni kærlega fyrir ræðuna sem fjallaði að mestu leyti um höfundarétt. Ég hnaut um eitt, af því að ég er enn á sama stað og áðan þegar ég átti orðastað við flokksbróður hans, hv. þm. Smára McCarthy, og velti fyrir mér vörn almennings gegn ólöglegu efni. Í 14. gr. umræddra laga sem er verið að breyta núna er talað um ábyrgð vegna hýsingar. Þar er í 3. tölulið 1. mgr. talað um að hýsingaraðili beri ábyrgð ef hann hefur haft vitneskju um gögn sem innihalda barnaklám.

Ég velti aðeins fyrir mér hvort það þurfi ekki einmitt að gera hýsingaraðila meira ábyrgan fyrir því efni sem hann er með í sínum fórum og stuðlar að að fari í dreifingu þegar um er að ræða ólöglegt efni. Nú er ég ekki að tala um höfundaréttarvarið efni, en þó, vissulega höfundaréttarvarið efni, segjum klám sem er fengið án vilja viðfangsefnisins, þótt um sé að ræða fullorðinn einstakling. Hvers vegna er það ekki inni í þessu? Hefði ekki verið rétt að reyna að finna leið til að verja þá einstaklinga sem hafa þurft að þola slíkt?