149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn auðkenning og traustþjónusta fyrir rafræn viðskipti.

634. mál
[14:24]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Neytendavernd á netinu er afskaplega vandmeðfarið og erfitt fyrirbæri vegna þess að þar sem landamæri skipta hér um bil engu máli fylgir það að nauðsyn er þá á því að neytendavernd gildi yfir landamæri og hvert sem er. Þetta er náttúrlega gert í fríverslunarsamningum að einhverju marki en yfirleitt mjög takmarkað. Sá fríverslunarsamningur sem við erum aðilar að, sem veitir hvað sterkasta neytendavernd, er einmitt EES-samningurinn og þessi reglugerð kemur á grundvelli hans þannig að segja má að þetta tiltekna neytendaverndarmál, sem snýst um að tryggja öryggis- og gæðaviðmið varðandi traustþjónustu og auðkenningu, er dæmi um það hvernig neytendavernd á að fara fram á netinu.

Síðan er hitt að margir Íslendingar stunda viðskipti við fyrirtæki utan EES-svæðisins í gegnum netið, t.d. nefni ég Ali Express sem er mjög góð þjónusta, en það er kannski erfitt að framfylgja neytendavernd gagnvart vefjum sem þeim. Svo má líka spyrja í samhengi þessa hvort traustþjónustuskilyrði á þeim vef ættu að vera háð einhverjum reglum. Þetta er erfitt.

Það er kannski ágætt að ég taki það fram að nú á ég sennilega að heita einhvers konar sérfræðingur í þessum stafrænu öryggismálum en ég tók ekki eftir þeim göllum eða þeim fyrirvörum sem þarf að setja við þetta mál fyrr en hv. þm. Jón Þór Ólafsson benti mér hreinlega á það. Það sýnir hversu flókið mál eins og þetta getur verið. Ég sat með þetta í nefndinni og mér datt ekki í hug að það gæti verið vandamál (Forseti hringir.) tengt þessu og reyndar kom í ljós við nánari athugun að svo er ekki, en það er samt erfitt að vera vakandi fyrir svona löguðu.