149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[15:43]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það, enda höfum við í raun bara þessar tvær meginleiðir til að fjármagna hið opinbera, skatta annars vegar og þjónustugjöld hins vegar. Það er heilmikil pólitík að tala fyrir því að skattar eigi að lækka og þjónustugjöld að hækka. Við sjáum að hér eru stjórnmálaflokkar sem tala fyrir auknum þjónustugjöldum. Hv. þingmaður nefnir sérstaklega sjúklingagjöld, skólagjöld og veggjöld. Þetta eru allt hápólitískar ákvarðanir um hvernig við eigum að fjármagna sameiginlega innviði. Almennt séð held ég að við hv. þingmaður séum sammála um að það er miklu sanngjarnara að hafa trausta skatta, almennt skattkerfi, samtryggingu, sem fjármagnar einmitt þá opinberu innviði sem við viljum að allir eigi góðan aðgang að óháð efnahag.

Það er líka einkenni mjög vanþróaðra ríkja að hafa lágt skattþrep, einfalt skattþrep. Við sjáum það að eftir því sem ríki þróast og verða ríkari verða skattþrepin jafnvel fleiri. Ég lærði fyrir löngu, þegar Tansanía var að fá sjálfstæði, að eitt af því fyrsta sem Tansanía gerði var að fá sænska skattasérfræðinga til að veita sér ráð um hvernig innleiða ætti skilvirkt skattkerfi. Auðvitað geta skattkerfi þróast yfir í eitthvert bákn og unnið gegn sjálfu sér. Skattkerfi þurfa að sjálfsögðu að vera skilvirk og við eigum að vera órög við að endurskoða það sem betur má fara.

Almennt er skattkerfið á Íslandi frekar skilvirkt. Við sjáum hvernig ríkisskattstjóri hefur haldið á sínum málum. Þetta er frekar notendavæn stofnun. Við skilum að uppistöðu rafrænt enda eru upplýsingar forskráðar og annað í þeim dúr. Ég óttast ekki að við séum að flækja kerfið með þeim hætti að það sé óyfirstíganlegt að stíga þessi skref. Ef eitthvað er ættum við að taka fleiri skref í þessa áttina, frú forseti.