149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[18:03]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað ætti að styrkja grasrótarsamtök sem berjast gegn ofbeldi til að sinna því góða starfi sem þau sinna, hvort sem það er Aflið eða hvað annað. Ég held reyndar að þessi aðgerðaáætlun geti verið ágætur upphafspunktur fyrir slíkan stuðning. Hér erum við t.d. með lið C.6, um stuðning við svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi. Þingmaðurinn nefndi þjónustumiðstöðina fyrir þolendur á Norðurlandi og það verkefni sem nú fer í gang í framhaldinu til að meta þörf fyrir önnur sambærileg úrræði á landsbyggðinni. Staða fólks er mjög ólík eftir því hvort það býr í þéttbýlinu á Suðvesturlandi eða í hinum dreifðu byggðum. Í þessum málum skiptir mjög miklu að hafa landsbyggðargleraugun uppi og átta sig á að það gilda ekki endilega sömu lögmál í þessari baráttu. Og reyndar held ég að mjög margar aðgerðir í áætluninni hafi tekið þetta til greina.

Nú held ég að ég hafi gleymt seinni spurningunni. (Gripið fram í.) (AFE: … um kvennaathvörfin.) Já, með kvennaathvörfin. Þar sem þetta er fyrsta aðgerðaáætlunin gegn ofbeldi og afleiðingum þess er mjög margt sem snýst um að meta þörfina. Það hversu mörg kvennaathvörf við þurfum úti um landið er eitt af því. Það verður spennandi að sjá hvernig þessi vinna heldur áfram og hvernig hún lítur út þegar næsta áætlun kemur hingað til þinglegrar meðferðar til að taka við af þessari þar sem komin verður skýrari mynd á hvað þarf til að bregðast við þörfinni. Í dag er það ekki vitað nógu mikið. Þetta er eitt af þeim viðvarandi verkefnum sem við eigum við að etja í þessum málum, að vinna upp upplýsingaskortinn sem ríkir.