149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[20:02]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég gat ekki látið hjá líða að koma upp til að ræða þetta mál í síðari umr. þar sem ég hafði því miður ekki tök á að taka þátt í fyrri umr. Eins og ég kom inn á áðan í andsvari við framsögumann málsins, hv. þm. Andrés Inga Jónsson, var ég líka svo ánægð að sjá hversu vel reifað málið var af hálfu nefndarinnar og fjöldi gesta næstum því jafn mikill og í fiskeldismálinu. Það er býsna vel gert. Ég held að sá gestafjöldi hafi verið nálægt því að setja met.

Það eru nokkur atriði sem mig langaði að fara yfir og snerta örlítið á og byrja á því að fagna því hvað það hefur verið góð umræða um þetta mál í dag, þótt ég hafi reyndar saknað þess að fleiri stjórnarþingmenn tækju þátt í umræðu um þetta mikilvæga mál., þ.e. aðrir en hv. framsögumaður Andrés Ingi Jónsson. — Afsakið, forseti, hef ég bara tvær mínútur?

(Forseti (BN): Nei, hún telur upp núna.)

Já, takk fyrir skýringuna, forseti. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál sem á sannarlega skilið að fá góða umræðu, sérstaklega þar sem við erum að setja stefnu til ársins 2022. Ekki síst vegna þess að allsherjar- og menntamálanefnd leggur til töluvert miklar breytingar og greinilega mjög ítarlega umfjöllun þá verð ég að viðurkenna að ég sakna þess að stjórnarþingmenn taki ekki þátt í umræðunni líka.

Í þingsályktunartillögunni er fjallað um alls 28 aðgerðir sem er góður fjöldi og eftir því sem mér sýnist á nefndarálitinu og þingsályktunartillögunni spanna aðgerðirnar nokkuð vítt svið, sem er eðli málsins samkvæmt mikilvægt og gott. En hér er í fyrsta sinn verið að leggja fram heildstæða áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess í íslensku samfélagi.

Það gladdi mig mjög að sjá í álitinu að þar segir að samhljómur hafi verið meðal umsagnaraðila um mikilvægi þess að ráðast í stefnumótun af þessu tagi því undanfarin misseri hafi ítrekað komið í ljós hversu rótgróið og víðtækt vandamál ofbeldi er. Það er því mjög mikilvægt og jákvætt að þingið sé að taka á því með þessum hætti.

Það sem vakti sömuleiðis athygli mína, og fleiri hv. þingmenn hafa snert á í sínum ræðum, er samráðið. Ég fagna því hversu mikið samráð virðist hafa verið, bæði í undirbúningi málsins og í meðförum nefndarinnar. En eins og kemur þó fram í nefndarálitinu hefði greinilega mátt hafa meira samráð, sérstaklega við frjáls félagasamtök, Jafnréttisstofu, foreldrasamtök og hagsmunasamtök sértækra hópa, auk þess sem það hefði mátt tengja þetta betur við háskólasamfélagið. Ég fagna því mjög tillögu nefndarinnar að hafa landssamráðsfundi árlega þannig að þar sé vettvangur fyrir þessa aðila til að koma saman og ræða málið.

Annað sem vakti athygli mína í tengslum við samráðið er, með leyfi forseta, það sem kemur fram í nefndarálitinu:

„Með framlagningu þessarar tillögu var stigið mikilvægt skref til að festa í sessi samráð á milli þriggja ráðuneyta, sem unnið hafði verið að á grundvelli samstarfsyfirlýsingar ráðherra frá 2014.“

Það sem vakti athygli mína þarna er að það sé yfir höfuð ástæða til að fagna samráði ráðuneyta. Ef ráðuneytin eiga ekki að vinna saman veit ég ekki hverjir eiga að gera það. Í fyrri störfum mínum í mínu fyrra lífi sem sveitarstjórnarmaður var skortur á samtali og samráði á milli ráðuneytanna því miður stórt vandamál í samskiptum við ríkið. Ég minnist þess vel í vinnunni í tengslum við sóknaráætlanirnar að starfsfólk ráðuneytanna, sem var búið að vera að vinna hjá ráðuneytunum í jafnvel 10–15 ár, var að hittast í fyrsta skipti en samt var það að fjalla um nátengda málaflokka. Ég fagna því mjög með hv. allsherjar- og menntamálanefnd þeirri staðreynd að ráðuneytin hafi starfað saman og ég hvet eindregið til þess að stuðlað verði að því sem allra mest eða eins og möguleiki er.

Þá langaði mig að nefna annað sem einnig kemur fram í samráðskaflanum. Nefndinni var bent á þörfina fyrir heildstæðari nálgun á aðkomu lögreglu að einstökum liðum aðgerðaáætlunarinnar en þó væru mismunandi embætti lögreglunnar nefnd sem samstarfsaðilar. Tekur nefndin undir þetta og það er hið besta mál. Í því samhengi langar mig einmitt að nefna, og reyndar kemur nefndin inn á það lítillega í nefndarálitinu og bendir á, það frumkvöðlastarf sem lögreglan á Norðurlandi eystra er að vinna til að koma til móts við þarfir þolenda kynferðisbrota. Þeim er t.d. boðið að þiggja sálfræðiviðtal eftir skýrslutöku og sömuleiðis kynnt niðurfelling kynferðisbrotamáls með viðtali en ekki bréfi. Við þingmenn Norðausturkjördæmis höfum verið svo heppin að fá að fylgjast svolítið með þeirri vinnu og hvernig þetta hefur verið að þróast og gerjast. Það er mjög gleðilegt að heyra af jákvæðri upplifun þolenda af samskiptum við lögregluna með þessum smávægilegu breytingum. Ég heyri það líka á meðal lögreglumanna sem starfa þarna og frá lögreglustjóra að þetta er líka mjög jákvæð upplifun — kannski er asnalegt að nota orðið jákvæður en allt svona gerir upplifunina eins jákvæða og hægt er miðað við erfiðar aðstæður, sem er gríðarlega gott. Ég vona svo sannarlega að þetta frumkvæði lögreglustjórans og lögreglunnar á Norðurlandi eystra verði til þess að fleiri lögreglustjóraembætti taki upp sama verklag.

Þá langaði mig að snerta lítillega á nokkrum fleiri atriðum en eins og ég kom inn á áðan eru alls 28 aðgerðir sem saman mynda þessa ágætu áætlun. Það sem mig langaði að koma inn á fyrst er verkefni A.1 sem er fræðsla um ofbeldi til þeirra sem vinna með börnum í skóla-, íþrótta- og æskulýðsstarfi, sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt og ekki síður mikilvæg fræðslan um hvernig taka eigi á móti upplýsingum um ofbeldi og veita stuðning og sömuleiðis að tilkynna um það. Þó að það sé ávallt erfitt að tilkynna um ofbeldi gagnvart barni til barnaverndaryfirvalda ber okkur samt sem áður skylda til þess, eins og hefur verið svo vel bent á í nýlegri herferð UNICEF. Þess vegna er þetta verkefni alveg sérstaklega mikilvægt.

Í því samhengi langar mig líka að nefna þörfina á forvörnum og mikilvægi þeirra, t.d. í skólunum, í leikskólum, grunnskólum og menntaskólum. Félagsráðgjafafélag Íslands hefur t.d. mikið talað fyrir því að það séu félagsráðgjafar inni í skólunum, þeir verði hluti af umhverfi barnanna og séu til staðar til að leita til og geta þannig verið forvirkt úrræði, einhvers konar forvörn gegn ofbeldi. Námsráðgjafarnir eru náttúrlega frábærir starfsmenn skólanna, en menntun þeirra og þekking snýr fyrst og fremst að því að hjálpa börnum með námsörðugleika og þeir eru ekki sérþjálfaðir í því að taka á félagslegum vanda barna, þó að þeir þurfi hins vegar því miður oft að vera það í sínu starfi. Þess vegna held ég að það gæti verið mjög gagnlegt að vinna að því að félagsráðgjafar komi inn í skólana.

Mig langar að hrósa nefndinni, og svo sem líka þeim sem sömdu þingsályktunartillöguna, fyrir að vera tiltölulega vakandi fyrir því að það býr fólk fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Það er mjög mikilvægt og það gleymist því miður allt of oft í búblunni í 101. Ég nefni sem dæmi verkefni A.7, samræmd heilsuvernd skólabarna á landsvísu. Þar er talað um mikilvægi þess að það sé aðgengi að heilbrigðisstarfsfólki. Þar vil ég vekja athygli á þeirri stöðu sem því miður er víða um land, það er hreinlega ekki heilbrigðisstarfsfólk á staðnum. Ég get nefnt t.d. Borgarfjörð eystri og fleiri staði. Vandamálið virðist því miður vera svolítið þannig að excel-skjalið miðar við Reykjavík þar sem búa tugþúsundir íbúa á meðan utan höfuðborgarsvæðisins, t.d. á Austfjörðum, eru svæði sem passa ekki inn í excel-skjal, eins og t.d. á Seyðisfirði þar sem eru um 700 íbúar. Þeir fá bara 70% hjúkrunarfræðing því að það er miðað við einn hjúkrunarfræðing á hverja 1.000 íbúa. Fyrir lítinn einangraðan stað eins og Seyðisfjörð, sem verður vonandi bætt úr sem fyrst með göngum undir Fjarðarheiðina, (Gripið fram í: Það skulum við vona.) er erfitt að fá menntað heilbrigðisstarfsfólk til starfa. Það eru ekkert margir sem væru til í að flytja til Seyðisfjarðar upp á 70% starfshlutfall. Það er eitthvað sem þarf að hafa í huga líka í verkefni A.7.

Og við höldum áfram. A.10 er líka frábært og flott verkefni, fræðsla um úrræði fyrir þolendur ofbeldis um allt land, mjög jákvætt verkefni. Aftur hrósa ég fyrir að hugsa um allt landið. En þar náttúrlega stoppum við aftur á því að við þurfum að tryggja að það sé aðgengi að úrræðum um allt land, sem er því miður ekki alltaf.

Við skulum þá fara í C.3 sem er stuðningur við þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi eystra. Eins og við komum inn á áðan er það mjög jákvætt og flott verkefni, unnið í samstarfi margra aðila á svæðinu, sem er enn þá dýrmætara og rennir styrkum stoðum undir þjónustumiðstöðina sem getur þá leitað í reynslubanka og hefur gott aðgengi innan þessara stofnana og meðal þessara aðila. En eins og ég kom inn á í andsvari mínu við framsögumann áðan hef ég samt sem áður smávægilegar áhyggjur af einni stoðinni, sem er Aflið á Akureyri. Ég ítreka mikilvægi þess að rekstur Aflsins verði tryggður til framtíðar. Það starf sem unnið er þar er gríðarlega gott og mikilvægt fyrir íbúa á Norðurlandi og íbúa á Austurlandi, og svo sem víðar, þau þjónusta að sjálfsögðu ekki bara Akureyri.

Í því samhengi má líta til C.4, verkefnis um viðbragðsteymi um sérhæfða ráðgjöf til þolenda ofbeldis á landsbyggðinni. Þar er talað um að setja af stað tilraunaverkefni í umsjón Bjarkarhlíðar þar sem myndað verði teymi félagsráðgjafa, geðlækna, sálfræðinga og eftir atvikum annarra sérfræðinga sem veiti þolendum ofbeldis á landsbyggðinni viðeigandi aðstoð í kjölfar ofbeldis. Það er frábært markmið og ég gleðst mjög yfir að nefndin bendir þarna á og hefur greinilega fengið ábendingu um að það sé eðlilegt að þjónustumiðstöðin á Norðurlandi komi þarna að líka, sem er bara eðlilegt.

Það sem mig langaði að benda á er hvað það eru ofboðslega ólíkar aðstæður eftir svæðum. Við erum svolítið gjörn á að setja landsbyggðina í eitt, við notum orðið landsbyggð og það á að lýsa öllu svæðinu utan höfuðborgarsvæðisins, sem er náttúrlega ekki alveg sanngjarnt. Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, hefur notað orðið landsbyggðir í því samhengi til að sýna hvað þetta eru ofboðslega fjölbreytt og ólík svæði sem um ræðir. Jafnvel innan svæða er mikill fjölbreytileiki, eins og t.d. á Norðurlandi eystra þar sem við höfum Akureyri, sem er má segja hin borgin, en svo erum við líka með staði eins og Húsavík sem er töluvert minni, við erum með Siglufjörð og Ólafsfjörð, en svo erum við líka með þorp og bæi eins og Raufarhöfn, Þórshöfn og Bakkafjörð, sem eru náttúrlega mjög ólíkir. Aðstæður eru líka gríðarlega ólíkar. Eins og hefur komið fram í kynningu, m.a. frá lögreglunni á Norðurlandi eystra, er mjög áhugavert að sjá tölfræði um að það er bara hreinlega ekkert heimilisofbeldi á norðausturhluta Norðausturkjördæmis. Það er alla vega ekki tilkynnt til lögreglu. Þetta vekur ákveðnar áhyggjur af þolendum þar því ég ætla leyfa mér að efast um að þar sé svo mikill heimilisfriður að það sé bara ekkert ofbeldi. Auðvitað vonar maður það. En ég ætla að leyfa mér að efast um það miðað við reynsluna annars staðar.

Ég gæti nefnt fleiri dæmi, t.d. C.6, stuðning við svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi. Ég tek hjartanlega undir það. Sömuleiðis fjölbreyttari meðferðarúrræði fyrir gerendur í ofbeldismálum, sem er líka mikilvægt, gerendur gleymast því miður allt of oft í umræðunni.

Svo er það C.9, mat fyrir þörf á kvennaathvörfum á landsbyggðinni, sem ég tel að sé gríðarlega mikilvægt. Ég fagna því að það eigi að meta það, eins og hv. framsögumaður kom inn á í andsvari sínu áðan, það verði kortlagt og skoðað. Eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson sagði áðan höfum við ekki nægar upplýsingar. En það eru hins vegar sterkar vísbendingar um að þörfin sé umtalsverð. Þó að við séum e.t.v. ekki að fara að setja upp kvennaathvörf í hverjum einasta bæ eða hverju einasta þorpi er samt mjög mikilvægt að það sé a.m.k. eitt í hverju kjördæmi eða eitthvað slíkt. Það þyrfti ekki einu sinni að vera svo mikið en alla vega þannig að það sé aðgengilegt fyrir sem flesta sem á því þurfa að halda.

Mig langar að eyða þessari mínútu sem ég á eftir í lið C.13 sem ég held að sé virkilega mikilvægur punktur og ég er mjög glöð að sjá hann. Það er eftirfylgni með aðgerðaáætlun þessari. Hann lætur ekki mikið yfir sér en er líklega mikilvægasti punkturinn í öllu skjalinu því að án eftirfylgni náttúrlega gerist ekki neitt. Því miður er reynslan sú að með góðum áætlunum fylgir ekki fjármagn og ekki vilji til að framkvæma. Ég vona svo sannarlega að svo sé ekki í þessu tilfelli.

Ég tek í rauninni undir fyrirvara hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar, Helga Hrafns Gunnarssonar og Jóns Steindórs Valdimarssonar um fjármögnun þeirra verkefna sem tillagan gerir ráð fyrir og vona svo sannarlega að það sé samræmi á milli metnaðar, markmiða og fjármuna í þessari ágætu áætlun.