149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[20:25]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir mjög góðar ábendingar og athugasemdir og biðst innilegrar afsökunar á að hafa talið vitlaust. Þetta skrifast á að ég las hér 28 aðgerðir og taldi svo ekkert en ég biðst velvirðingar á því og leiðréttist það hér með. Þetta eru að sjálfsögðu 30 aðgerðir.

Ég fagna og tók sérstaklega eftir þremur síðustu atriðunum sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. árlegum samráðsfundi, eftirfylgninni og endurskoðuninni, sem ég tel sérstaklega mikilvæga, en minni enn og aftur á mikilvægi þess að gleyma ekki landsbyggðinni í samráðinu. Það vill því miður allt of oft vera þannig að stofnanirnar og félagasamtökin á landsbyggðinni gleymast. Það er gríðarlega mikilvægt að það gerist ekki og ég hef svo sem trú á því vegna þess hvernig verkefnin eru sett upp og sömuleiðis vegna árlegs landssamráðsfundar að það gerist ekki í þessu tilfelli.

Annars tek ég undir með hv. þingmanni um samráð ráðuneytanna. Auðvitað er samt pínkuhjákátlegt að standa hér og fagna því að ráðuneytin tali saman og vinni saman. En þetta er gríðarlega stórt skref í þá átt á sama hátt og sóknaráætlanirnar voru á sínum tíma og ég fagna þeim svo sannarlega.