149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[20:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Herra forseti. Örlítið í viðbót. Mig langar til að óska fólki til hamingju með nokkur verkefni, t.d. vitundarvakningu um einelti og ofbeldi á vinnustöðum, fræðslu um úrræði fyrir þolendur ofbeldis um allt land og annað sem tengist eineltinu, þ.e. fagráð eineltismála fyrir öll skólastig og íþrótta- og æskulýðsstarf. Það eru gríðarlega mikilvæg og tímabær verkefni. Svo vildi ég líka að minnast á bls. 4 eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson, nema aðrar setningar, með leyfi forseta:

„Alþingi brást við #metoo-ákalli kvenna í stjórnmálum, sem hlaut heitið Í skugga valdsins, með því að boða til rakarastofuráðstefnu 9. febrúar 2018. Þar voru skipulagðar umræður í vinnustofum þar sem þingmenn þvert á flokka ræddu opinskátt um kynferðisofbeldi, kynferðislega áreitni, kynjamisrétti og hvaða leiðir mætti fara til að uppræta þá rótgrónu kynjamismunun sem frásagnir stjórnmálakvennanna höfðu sýnt. Í framhaldinu var siðareglum fyrir þingmenn breytt með þingsályktun nr. 18/148, þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu.“

Mig langar til að vissu leyti, þó ekki á jákvæðan hátt, að þakka stórum hópi eins þingflokks fyrir að sýna af hverju það er mjög mikilvægt að slík áætlun sé komin fram þar sem þau sátu á rausi á Klaustur bar hérna við hliðina. Það tal sýndi augljóslega að þörf er á þessu.